Skór 5 prósent farþega skoðaðir á Kastrup

Hingað til hefur skóbúnaður farþega ekki verið skannaður á Kaupmannahafnarflugvelli. Evrópusambandið gerir nú kröfu um að Danir taki upp eftirlit.

Á heimasíðu Kaupmannahafnarflugvallar stendur skýrum stöfum að skór farþega eru ekki skoðaðir þar á bæ. Völlurinn hefur þar nokkra sérstöðu því víðast hvar er handahófskennt eftirlit stundað og hér á Íslandi eru allir látnir fara úr skóm. Frá og með 6. nóvember verða Danir að laga sig að reglum Evrópusambandsins og skanna skó þeirra farþega sem fá öryggishliðin til að pípa.

Talsmaður Kaupmannahafnarflugvallar segir í viðtali við Túrista að hann búist við að aðeins fimm prósent farþega verði látnir fara úr skónum þegar nýju reglurnar öðlast gildi. Hann segir þetta eingöngu gert til að mæta kröfum Evrópusambandsins.

Líkt og Túristi hefur margoft bent á þá er eftirlit með skóm flugfarþega hér á landi óvenju strangt. Meira að segja í Bandaríkjunum hafa yfirvöld slakað á en þar hefur eftirlitið verið mun strangara en í Evrópu. Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, sagði í sumar að hann ætlaði að fara yfir þessi mál með Flugmálastjórn og Isavia, rekstraraðila Keflavíkurflugvallar og niðurstöðu væri að vænta í haust. Hennar er enn beðið.

TENGDAR GREINAR: Reglur um skó endurskoðaðar í haust

Mynd: Kaupmannahafnarflugvöllur