Stundvísast í Evrópusambandi flugfélaga

Ekkert flugfélag innan raða AEA hélt eins oft áætlun í september eins og Icelandair gerði.

Evrópusamband flugfélaga, AEA, birtir reglulega gögn um stundvísi flugfélaga innan sinna raða. Í síðasta mánuði var Icelandair stundvísast í sambandinu bæði þegar litið er til lengri flugleiða og þeirra styttri. Samanlagt fóru vélar félagsins í loftið á réttum tíma í 93,5 prósent tilvika samkvæmt tilkynningu frá Icelandair. Það er sama hlutfall og mælst hefur í stundvísitölum Túrista í september yfir stundvísi þegar kemur að brottförum í Keflavík. AEA mælir hins vegar stundvísi flugtaka á öllum flugvöllum en gengur þó ekki eins langt og Túristi gerir og reiknar út meðaltafir í ferðum félaganna. En meðalbið eftir brottförum Icelandair í Keflavík í nýliðnum mánuði var tæp ein og hálf mínúta.

„Góð stundvísi er sem fyrr lykilatriði í þjónustu Icelandair og það er alltaf jafn ánægjulegt að fá staðfestingu á því að við stöndum framarlega á þessu sviði í samanburði við öll stærstu og þekktustu flugfélög Evrópu. Við höfum stækkað leiðakerfi og tengistöð okkar á Keflavíkurflugvelli mikið að undanförnu og starfsfólkið okkar hefur leyst það verkefni frábærlega“, segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair í tilkynningunni.

Samkvæmt nýjustu stundvísitölum Túrista þá bætti Icelandair enn stundvísi sína á fyrri hluti þessa mánaðar og fóru vélar félagsins í loftið frá Keflavík á réttum tíma í 97 prósent tilvika.

TENGDAR GREINAR: Tengiflug í súginn vegna seinkunar –  Stundvísitölur fyrri hluti október

Mynd: Icelandair