Tengiflug í súginn vegna seinkunar

Þó úrvalið af beinu flugi frá Keflavík út í heim sé töluvert þá þurfa íslenskir túristar oft að millilenda áður en komið er á áfangastað. Réttindi þeirra sem missa af framhaldsflugi eru misjöfn og ódýrasti miðinn getur auðveldlega orðið dýrkeyptur.

Það eru vafalítið margir sem velja sjálfir að setja saman utanlandsferð sem inniheldur framhaldsflug. Alls kyns netsíður auðvelda fólki að finna flug sem passar og að fara á eigin vegum getur verið mun ódýrari kostur. Þessi hópur farþega lendir þó klemmu ef seinkun á fyrra flugi verður þess valdandi að fólk missir af tengifluginu því það á sjaldnast kröfu á flugfélögin og þarf því að kaupa nýjan miða til að komast á áfangastað. Farmiðar keyptir rétt fyrir brottför eru alla jafna dýrir og því kostnaðarsamt að lenda í þessari stöðu. Ferðatryggingar bæta ekki tjónið.

Svona tryggir þú þig

Hjá Icelandair og SAS er hægt að kaupa farseðla sem gilda einnig fyrir framhaldsflug þó það sé framkvæmt af öðrum aðila. Félagið sem seldi miðann er skyldugt til að koma fólki á áfangastað og greiða kostnað sem tafir gætu valdið. Oftar en ekki geta farþegar með þannig farseðil innritað farangur sinn alla leið frá Keflavík og fengið afhent brottfararspjald fyrir bæði flugin.

Iceland Express og WOW air bjóða ekki upp á farmiða þar sem framhaldsflugið er hluti af sama farseðlinum. Á heimasíðum beggja fyrirtækja er fólki bent á að láta að minnsta kosti þrjá tíma líða á milli komu fyrra flugs og brottfarar þess síðara. Því við millilendingu þurfa farþegar þessara félaga að sækja farangur, innrita sig í tengiflug og fara í gegnum vopnaleit. Það ferli getur auðveldlega tekið hátt í tvo tíma líkt og útsendari Túrista reyndi á Kaupmannahafnarflugvelli í sumar. Sá völlur er þó mjög heppilegur fyrir framhaldsflug sökum smæðar. Á stærri völlum eins og Heathrow og Charles De Gaulle getur fólk þurft að fara á milli bygginga og það lengir ferlið töluvert.

Á heimasíðum lággjaldaflugfélaganna Norwegian, German Wings og Airberlin er hægt að kaupa miða frá Keflavík með millilendingu en þó aðeins ef bæði flugin eru framkvæmd af félaginu sjálfu. EasyJet gefur aðeins færi á að bóka eitt flug í einu.

Stundvísi mikilvæg

Eins og gefur að skilja þá skiptir stundvísi í flugi miklu máli fyrir ferðamenn og því hefur Túristi tekið saman stundvísitölur sínar daglega síðan í júní 2011. Þar geta farþegar séð hversu vel félögin á Keflavíkurflugvelli halda áætlun.

NÝJAR GREINAR: Ferðamannaborg ársins í EvrópuVerslað í Washington5 ástæður til að heimsækja Berlín í vetur

Mynd: Morten Bjarnhof/Copenhagen Media Center