Þriðja mesta lækkunin á íslenskum hótelum

Þeir sem pöntuðu gistingu hér á landi í gegnum eina stærstu hótebókunarsíðu í heimi greiddu að meðaltali minna nú en í fyrra fyrir herbergin. Aðeins í tveimur löndum lækkaði verðið meira en hér.

Á fyrri helmingi ársins lækkaði verð á íslenskum hótelum um tíund samkvæmt útreikningum hótelbókunarsíðunnar Hotels.com. Fór meðalverðið sem viðskiptavinir síðunnar greiddu fyrir hótelnóttina hér úr 18.300 krónum í 16.600. Á heimsvísu voru það aðeins hótelstjórarar í Óman og Kolumbíu sem þurftu að sætta sig við meiri verðlækkanir.

Meðalverð Hotels.com eru reiknuð út í breskum pundum og hefur íslenska krónan veikst um 6 prósent gagnvart pundinu á tímabilinu og hefur sú breyting áhrif á stöðuna.

Reykjavík var ein þeirra borga þar sem verðið féll mest samkvæmt Hotels.com eða um 11 prósent á fyrri hluta ársins í samanburði við sama tíma í fyrra.

Hvert vægi Hotels.com er á íslenska hótelmarkaðnum er ekki vitað og því ekki víst að þessi verðlækkun sem fyrirtækið hefur skráð í sínar bækur endurspegli raunverulega stöðu hér á landi.

NÝJAR GREINAR: Gistnóttum Íslendinga í Skandinavíu fjölgaði mikiðFerðamannaborg ársins í Evrópu