Verslað í Washington

Það kostar ekkert að skoða þekktustu kennileitin né söfnin í höfuðborg Bandaríkjamanna. Þar er því hægt að versla fyrir allan peninginn.

Það snúa sennilega fáir tómhentir heim úr ferð til Ameríku. Úrvalið í stórborgunum vestanhafs tekur nefnilega flestu öðru fram og verðlagið oft betra en við eigum að venjast hér heima.

Þeir sem leggja leið sín til Washington komast varla hjá því að kíkja í nokkrar búðir því þær verða víða á vegi fólks þegar gengið er á milli hinna þekktu bygginga og minnismerkja sem setja svo sterkan svip á borgina. Sú staðreynd að það kostar sjaldnast nokkuð að skoða þekktustu mannvirkin og söfnin gerir það að verkum að pyngjan léttist fyrst þegar haldið er í verslunarleiðangur eða til að fá sér í svanginn.

Hverfisverslanir Hvíta hússins

Ætli langflestir ferðamenn í Washington eigi ekki leið framhjá heimili Bandaríkjaforseta einu sinni eða oftar á meðan á dvöl þeirra stendur. Minnismerkin, söfnin og þinghúsið við National Mall garðinn eru líka skyldustopp en í nágrenni við þessa merku staði er að finna mikið úrval af fatabúðum. Verslanir Macy´s, Banana Republic, H&M, Forever 21, J Crew og Urban Outfitters eru allar á breiðgötum F og G á milli sjöunda og þrettánda strætis. Það er því auðvelt að ná sögunni og tískunni á einu stóru bretti, alla vega ef ferðalangurinn er vel skóaður.

Notalegt í Georgetown

Í háskólahverfinu Georgetown er stemmningin nokkuð afslappaðri en innan um háhýsin í miðborginni. Á tveimur aðalverslunargötum hverfisins (M st. NW og Wisconsin Avenue) hafa kaupmenn og veitingamenn komið sér fyrir í lágreistum, gömlum byggingum og úti rölta stúdentar, fjölskyldur og virðulegir eldri borgarar með ný föt í pokum merktum þekktustu tískuvöruframleiðendum Bandaríkjanna og Evrópu. Á svæðinu er líka Apple búð, risastór North Face verslun og í Dean&Deluca fá sælkerar útrás. Þar inni er kjörið að fá sér snarl og má óhikað mæla með samlokustandi verslunarinnar þar sem smurðar eru risalokur sem gefa góða fyllingu áður en haldið er áfram í leit að bestu kaupunum. Á miðri M Street er Georgetown Park verslunarmiðstöðin sem hefur upp á ýmislegt að bjóða þó hún teljist frekar lítil á amerískan mælikvarða.

Sjötta stærsta kringlan

Það sem ekki finnst inn í Washington er næsta öruggulega til í hillum tveggja risastórra verslunarmiðstöðva í útjaðri borgarinnar. Í Pentagon City, rétt við skrifstofur varnarmálaráðuneytisins, eru um tvö hundruð verslanir (sjá lista) og þangað er auðvelt að komast með neðanjarðarlest. Aðeins lengra í burtu er hin risavaxna kringla Tyson Corner Center sem mun vera sú sjötta stærsta í Bandaríkjunum. Þangað fara þeir sem eru í þessu af lífi og sál því það tekur tíma að þræða hátt í 300 verslanir. Það er auðveldast að taka leigubíl út í Tyson Corner og má búast við að farið kosti rúmlega 30 dollara (borgar sig að spyrja bílstjórann fyrst).

Í Bandaríkjunum er hægt að gera góð kaup alla daga vikunnar og verslanir oftast opnar fram til átta á kvöldin mánudaga til laugardaga en styttra á sunnudögum.

Icelandair flýgur til Wasington fjórum sinnum í viku allt árið um kring.

TENGDAR GREINAR: Fjör á fjórtánda stræti í WashingtonBæjarins bestu í Washington

Myndir: Túristi