WOW air í samkeppni á 11 af 15 flugleiðum

Af þeim tíu áfangastöðum sem Iceland Express hafði á áætlun sinni fyrir næsta sumar duttu tveir út þegar WOW air tók yfir.

Nú þegar WOW air hefur keypt rekstur Iceland Express verða áfangastaðir félagsins næsta sumar fimmtán talsins. Félagið hafði áður tilkynnt að þrettán evrópskar borgir yrðu hluti af leiðakerfi sínu sumarið 2013. Iceland Express ætlaði að fljúga til tíu borga, þar á meðal Boston í Bandaríkjunum og Osló í Noregi. Hvorug borgin er hins vegar hluti af nýrri sumaráætlun. En athygli hefur vakið að Iceland Express hóf sölu á ferðum sumarsins fyrir nokkrum vikum nema til Boston og Osló.

Vilnius kemur aftur inn

Í tilkynningu frá WOW air í gær kom fram hvaða fimmtán áfangastaðir verða á sumaráætlun fyrirtækisins. Vilnius, höfuðborg Lítháen, kemur þar ný inn á lista því hana var ekki að finna á upphaflegu áætlunum félaganna tveggja fyrir næsta sumar. En Iceland Express flaug til borgarinnar í sumar en hafði ekki áform um að halda ferðum þangað áfram samkvæmt fréttatilkynningu.

Hörð samkeppni

Átta af borgunum sem WOW air flýgur til næsta sumar eru einnig hluti að leiðakerfi Icelandair. German Wings, Airberlin og Lufthansa munu veita WOW air samkeppni á flugleiðunum til Berlínar, Stuttgart og Dusseldorf í Þýskalandi. Hins vegar mun WOW air sitja eitt að áætlunarflugi til Alicante, Varsjár, Vilnius og Lyon.

Fjölgun ferða til Ítalíu?

Í tilkynningu gærdagsins kom einnig fram að forsvarsmenn WOW air ætla að stórauka tíðni ferða á marga áfangastaði. Þar á meðal má búast við fleiri ferðum til Ítalíu því nýverið hafði mbl.is eftir sölustjóra félagsins að samningar hefður náðst við sex þarlendar ferðaskrifstofur og hann reiknaði með að ítölskum ferðamönnum myndi fjölga um fjögur þúsund á næsta ári. Nú er hins vegar aðeins eitt flug á viku á boðstólum hjá félaginu til Mílanó næsta sumar. Ef það selst upp þá komast að hámarki tvö þúsund túristar frá Ítalíu með WOW air á tímabilinu.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Tengiflug í súginn vegna seinkunarMega ekki kalla sig flugfélag

Mynd: Víkurfréttir