Samfélagsmiðlar

Á heimavelli: Júlía í Berlín

Júlía Björnsdóttir hefur búið í Berlín síðan í ágúst 2011, eftir að hafa búið átta ár í Kaupmannahöfn. Hún hafði komið þónokkuð oft til Berlínar sem túristi áður en hún flutti þangað. Hún mælir með að fólk hjóli um borgina og er með hugmynd að góðum hjólatúr. Júlía og Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur, ganga reglulega um söguslóðir bóka Steinunnar með íslenska ferðamenn.

„Berlín er gríðarstór og hefur mjög fjölbreytta flóru lista- og menningarlífs. Borgin er lífleg og fjörug, falleg og ljót, jafnvel fallega ljót, og mjög græn. Það tók mig tíma að venjast því hversu stór hún er, bæði í vegalengdum og úrvali viðburða sem völ er á, eftir að hafa búið í Kaupmannahöfn þar sem hjólaleiðir voru þægilega stuttar og nokkurn veginn hægt að hafa yfirsýn yfir það sem var á seyði hverju sinni í borginni. Þegar ég áttaði mig á því að bæta alltaf nægum tíma á hjólaleiðina sem ég skoðaði á korti, og því að það er ekki nokkur leið að fylgjast með öllu því sem gerist í borginni hverju sinni, gat ég róað mig og byrjað að skoða og kynnast borginni í smærri skrefum.“

Hjólar út um allt

„Hverfin í Berlín eru mjög ólík, hvert með sínu sniði og einkennum, þau breytast hratt, og íbúar Berlínar tengja sig fremur við hverfin sem þeir búa í en borgina í heild sinni. Ég ætla að gefa mér nokkur ár í að kynnast borginni, og veit að það verður endalaust hægt að uppgötva eitthvað nýtt, og framboð listviðburða verður án efa jafn mikið og fjölbreytt um ókomna tíð.

Ég hjóla allt sem ég fer og fer oft í hjólatúra í frístundum. Sem túristi í Berlín myndi ég byrja á því að leigja mér hjól og hjóla eins mikið og mögulegt er. Hjólastígar eru flestir góðir og ef það eru ekki merktir hjólastígar á götunni er í lagi að hjóla á gangstéttum, stundum eru meira að segja hjólastígarnir á gangstéttunum, ólíkt t.d. Köben. Þótt almenningssamgöngur séu mjög góðar í Berlín (S-bahn, U-bahn, sporvagnar og strætó) þá upplifir maður borgina á allt annan hátt á hjóli og sér hluti og staði sem annars færu framhjá manni. Gott að muna að læsa hjólinu alltaf við eitthvað, t.d. grindverk eða staur, og hafa með luktir ef þær eru ekki fastar á hjólinu.“

Hugmynd Júlíu að dagstúr á hjóli:

Byrja við Alexanderplatz og hjóla út Karl Marx Allee, sem er breiðgata sem nær frá Alexanderplatz inní Friedrichshain hverfið. Sögufræg breiðgatan er eins og hún leggur sig á heimsminjaskrá UNESCO. Ef það er laugardagur eða sunnudagur væri gaman að stoppa á matar- og flóamarkaði á Boxhagener platz og fá sér svo eitthvað gott að borða á veitingastöðunum í kring um torgið. Skola því niður með Club Mate, Berlínar te/gosdrykknum.

Hjóla áfram niður Warschuer str. að East Side gallery, sem er lengsti eftirstandandi hluti múrsins, skreyttur myndum fjölda listamanna. Hjóla þaðan yfir Oberbaumbrücke inní Kreuzberg hverfið. Setjast á Plaza San Rafael del Sur við ána Spree sem rennur gegnum Berlín, með snarl og drykk og njóta stemmningarinnar í hverfinu.

Ef hjólað er lengra í austur þá mæli ég með því að skoða Treptower Park og minnisvarðann þar um fallna sovéska hermenn í seinna stríði. Garðurinn er fallegur og minnisvarðinn mikilfenglegur svo ekki sé meira sagt.

Hjóla svo til baka í gegnum Kreuzberg hverfið, að Oranienstr., og jafnvel stoppa þar á kaffihúsi eða bar. Kottbusser Tor er hjarta Kreuzberg, þar iðar allt af lífi og fjöri allan sólarhringinn. Ef maður er á ferðinni á þriðjudegi eða föstudegi er frábær tyrkneskur markaður við Maybachufer kanalinn þar sem hægt er að gera góð kaup á alls kyns matvöru, og ekki síst vefnaðarvöru. Þar kaupi ég efni og tölur, og oft grænmetið fyrir vikuna. Ef hjólað er lengra í suður, áfram í gegnum Kreuzberg, gegnum Volkspark Hasenheide, kemur maður á Tempelhof, sem er aflagður flugvöllur enn í óbreyttri mynd, og nú opið útivistarsvæði fyrir almenning. Algjörlega einstakt í heiminum. Þar finnst mér gaman að hjóla hratt á flaugbrautunum og setjast svo niður og njóta víðáttunnar, og flugvallarbyggingarinnar.

Það fer svo eftir hvar skal enda túrinn, en ef farið er aftur í Mitte er hægt að hjóla niður Mehringdamm og jafnvel stoppa á Curry 36 í eina góða currywurst, á að vera sú besta í borginni en auðvitað eru skiptar skoðanir um það.

Kaffi

„Ég er mikil kaffikona og uppáhaldskaffið mitt er á Bonanza á Oderbergerstr. við Mauerpark. Ef ég á leið í Schöneberg hverfið kem ég við á Double eye á Akazienstr., besta kaffistað Berlínar að margra mati.“

Matur

„Ég fer ekki oft út að borða en fer yfirleitt með gesti á góðan víetnamskan stað sem er orðinn mikill túristastaður, Monsieur Vuong á Alte Schönhauser Str. í Mitte. Fer stundum með vinum á Prater Garten, sem er þýskur bjórgarður í Prenzlauer Berg, þar sem við fáum okkur bjór og bratwurst eða schnitzel. Annars borða ég helst kebabb af skyndibita. Þeir eru útum allt og gerast ekki betri held ég en í Berlín.“

Næsta ganga Júlíu og Steinunnar um söguslóðir bóka þeirrar síðarnefndu er 5. desember en nánari upplýsingar má fá á Facebook síðu þeirra (sjá hér). Þeir sem vilja fylgjast með Júlíu í Berlín ættu að kíkja á bloggið hennar hér.

WOW air flýgur nú til Berlínar allt árið þannig að ferðalög til þýsku stórborgarinnar eru ekki lengur bundin við sumarið.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir BerlínTilboð á gistingu í Berlín fyrir lesendur Túrista

Nýtt efni

„Tilgangurinn er að sýna hvað höfuðborgarsvæðið hefur að bjóða í ferðaþjónustu og byggja upp þekkingu meðal þeirra sem í henni starfa," sagði Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins, þegar FF7 hitt hana skömmu eftir að sýningin HITTUMST var opnuð í Hafnarhúsinu í dag. Nokkur hópur var þegar kominn að skoða það sem í boði er …

Hilton-hótelkeðjan hefur gert samning um byggingu og rekstur tveggja hótela hér á landi í samstarfi við Bohemian Hotels ehf. Stefnt er að því að opna það fyrra við Hafnarstræti á Akureyri næsta sumar en þar verða 70 herbergi og mun hótelið bera heitið Skáld Hótel Akureyri. Seinna hótelið opnar við Bríetartún, við hlið Frímúrarahallarinnar í …

Flugfélagið Play hefur hafið miðasölu á flugi til Cardiff í Wales og er þetta gert vegna mikils áhuga á leikjum íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu gegn Wales í Þjóðadeildinni sem fara fram næstkomandi haust.  Þetta kemur fram í tilkynningu. Íslenska liðið mætir liði Wales á Laugardalsvelli 11. október en liðin mætast aftur á heimavelli Wales í Cardiff …

Í þeirri viðleitni að hemja troðningstúrisma hafa borgaryfirvöld í Amsterdam ákveðið að leyfa ekki byggingu fleiri hótela í miðborginni. Þrátt fyrir að kröfur hafi verið hertar í borginni gagnvart nýbyggingum hótela þá eru yfir 20 hótel nú á teikniborðinu, segir NL Times. Takmörkunin nær auðvitað ekki til þeirra hótela sem þegar hafa verið samþykkt. Túristar …

Como-vatn á Langbarðalandi dregur til sín um 1,4 milljónir ferðamanna á ári - og í glæsihúsum við vatnið hefur margt frægt og ríkt fólk athvarf. Meðal þeirra sem eiga hús þarna eru George Clooney, Donnatella Versace og Richard Branson. Kannski er það ekki síst efnaða fólkið sem orðið er þreytt á átroðningi - að venjulegir …

Allt frá því að Play var skráð á hlutabréfamarkað sumarið 2021 og fram til ársloka 2022 var Fiskisund ehf. stærsti hluthafinn í Play með 8,6 prósenta hlut. Fyrir Fiskisundi fóru þau Kári Þór Guðjónsson, Halla Sigrún Hjartardóttir og Einar Örn Ólafsson, sem lengi var stjórnarformaður flugfélagsins en settist í forstjórastólinn um síðustu mánaðamót. Einar Örn átti einnig …

Flugstöðin í Changi í Singapúr er ekki lengur í efsta sæti á árlegum lista Skytrax yfir bestu flugvellina heldur í öðru sæti. Hamad alþjóðaflugvöllurinn í Doha í Katar toppar nú listann sem birtur var í gær en hann byggir á einkunnagjöf farþega. Í þriðja sæti er Incheon í Seoul en í næstu tveimur sætum eru …

Fyrsta skemmtiferðaskip ársins kom til Ísafjarðar um síðustu helgi, þýska AIDAsol með nærri í 2.200 farþega. Á sunnudag koma tvö skip með væntanlega 3.000 - 4.000 farþega. Það er farþegafjöldi undir öllum viðvörunarmörkum sem Ísafjarðarbær ætlar að fylgja í framtíðinni vegna komu skemmtiferðaskipa. Nýsamþykktar fjöldatakmarkanir gilda raunar ekki á þessu ári þar sem bókanir hafa …