Borgirnar þar sem bjórinn þykir bestur

Fjórtán borgir þar sem heimamenn eru öfundsverðir af ölinu sínu.

Ljós, bragðlítill pilsner ratar ekki í eins mörg glös í dag og hann gerði fyrir nokkrum árum síðan. Nú vill fólk að bjórinn hafi karakter og afurðir örbrugghúsa njóta sífellt meiri vinsælda á kostnað verksmiðjuframleiðslunnar. Hér eru þær borgir sem höfundar ferðabóka Frommers segja að hafi að geyma besta bjórinn.

Dublin, Írlandi

Bareigendur víða um heim hafa lengi reynt að herma eftir stemningunni á knæpunum í heimaborg Guinness. Án þess þó að takast ætlunarverk sitt fullkomlega. Þeir sem vilja upplifa alvöru Dubliners fjör fara því til höfuðborgar Írlands.

Munchen, Þýskalandi

Októberfest Bæjara laðar til sín þúsundir ferðamanna á hverju hausti. Weihenstephan, elsta brugghús í heimi og bjórhöllin Hofbräuhaus hafa einnig komið borginni á ölkortið.

Amsterdam, Hollandi

Hinir heimsþekktu bjórar Amstel, Heineken og Grolsch hófu ferilinn í Amsterdam. Þar í borg er þó hægt að smakka á miklu betri bjórum en þessum þremur.

Prag, Tékklandi

Tékkarnir fundu upp gyllta pilsnerinn og fáar, ef nokkrar, þjóðir drekka eins mikið af bjór og þeir gera. Hér er að finna ógrynni af aldargömlum knæpum þar sem hægt er að setjast niður og drekka bjór úr stórri krús.

Vín, Austurríki

Þeir hafa ekki öðlast heimsfrægð austurrísku bjórarnir en í höfuðborginni eru víst nokkur góð örbrugghús og bjórhallir.

Tókýó, Japan

Það er ekki ódýrt að gera sér glaðan dag í Tókýó en þar mun víst vera gott úrval af bjórum á krana og fjöldi minni brugghúsa að ná góðum tökum á markaðnum.

Portland, Bandaríkjunum

Stærsta borg Oregon fylkis hefur verið kölluð höfuðvígi bjórsins í Bandaríkjunum. Ástæðan er sú að þar eru fleiri örbrugghús á hvern íbúa en í nokkurri annarri bandarískri borg. Hráefnið er víst oftast sótt í heimahagana sem er kostur fyrir umhverfisvæna bjórþambara.

Hanoi, Víetnam

Það er ennþá ódýrt í Víetnam og í hinni fallegu höfuðborg í norðurhlutanum er úrvalið af bjór gott. Þau hjá Frommers mæla sérstaklega með Bia Hoi bjórnum sem mun vera bruggaður án nokkurra rotvarnarefna.

Melbourne, Ástralíu

Það eru sennilega ýkjur að segja að það sér pöbb á hverju horni í Melbourne en margir eru þeir. Meðal vinsælustu merkjanna eru Victoria Bitter, Crown Lager og Carlton Draught.

Edinborg, Skotlandi

Skotar hafa lengi þótt góðir bruggarar og á öllum sjarmerandi börunum í Edinborg er því að finna gott úrval af alls kyns öli.

MEIRA: Ferðamannaborg ársins í Evrópu

Mexíkó borg, Mexíkó

Það fljóta ekki límónur ofan á öllum bjór í Mexíkó þó flestir séu þeir svalandi í hitanum.

Milwaukee, Bandaríkjunum

Fjögur af stærstu bjórfyrirtækjum í heimi héldu einu sinni til í borginni og því var hún lengi kölluð bjórborgin. Miller er enn á heimavelli í Milwaukee en sem betur fer fyrir íbúana þá eru líka minni brugghús sem eiga létt með að framleiða bragðbetri vöru en Miller.

Brussel, Belgía

Óvíða er ölið jafn fjölbreytt og í Belgíu og belgíska bragðið er sér á báti. Það er þó ekki bara bjórinn sem smakkast vel í Brussel því matsölustaðir borgarinnar svíkja engan.

MEIRA: Borgin þar sem hótelin gefa afslátt um helgar

Fíladelfía, Bandaríkjunum

Philly Beer vikan er haldin hátíðleg í júní og þá streyma bjóráhugamenn til borgarinnar til að gera sér glaðan dag.

Við þennan lista Frommers má bæta Denver sem gerir nú tilkall til að vera kölluð helsta bjórborg Bandaríkjanna eins og Túristi sagði nýlega frá (sjá hér).

NÝJAR GREINAR: Leiðin frá Hvíta húsinu að hamborgarabúllu forsetafrúarinnar

Mynd: VisitScotland/ScottishViewpoint