Ferðaminningar Dr. Gunna

Dr. Gunni eyddi öllum gjaldeyrinum í plötur í sinni fyrstu ferð til útlanda og var því blankur og svangur síðustu dagana. Nú skipuleggur hann ferðalögin betur og mælir með því að fólk noti sína aðferð til að fá betri „sörvis“. Út er komin bókin Stuð vors lands eftir Dr. Gunna þar sem saga dægurtónlistar á Íslandi er rakin.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Ég fór með tveimur félögum mínum með skemmtiferðaskipinu Ms Eddu til Newcastle. Þetta hlýtur að hafa verið 1983 því ég dansaði villt og galið við lagið Blue Monday með New Order á diskótekinu. Ég hef því verið 17 ára. Drakk ótæpilega af bjór, sem var drykkur sem maður þekkti lítið. Komst að því að það er lítið gaman að vera þunnur í skipi. Frá Newcastle fórum við á Interrail til London, Parísar, Zurich og enduðum í Amsterdam. Þetta var fyrir tíma kreditkorta svo ég var að sjálfssögðu búinn að eyða öllum peningunum í plötur þegar til Amsterdam kom. Í heila viku átti ég svona 500 kall til að eyða í mat á dag. Vorum á einhverju skíta farfuglaheimili. Vorum reknir út kl. 9 og máttum ekki snúa aftur heim fyrr en kl. 17. Ég man eftir mér hímandi undir skyggni við búðir því það var grenjandi rigning alla þessa viku, nartandi í þessa einu pulsu sem ég hafði efni á þann daginn. Síðasta daginn var brotist inn í farfuglaheimilið (sem var í skipi við höfnina) og vegabréfinu stolið. Þurfti að redda einhverjum pappír á löggustöðinni sem tók óratíma. Tveimur árum síðar var ég kallaður á löggustöðina í Kópavogi til að sækja stolna vegabréfið.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Eftir að ég fór að skipuleggja ferðirnar (það varð auðveldara með tilkomu alnetsins) hafa allar ferðir verið snilld. Ætli besta ferðin sé ekki brúðkaupsferðin 2002. Við giftum okkur í svona hallæriskapellu í Las Vegas, áttum yndislega brúðkaupsnótt á lúxushóteli og vorum svo í 2 vikur á Hawaii.

Tek alltaf með í fríið:

Lonely planet bókina um staðinn sem ég er að heimsækja. Hef verið með hana á koddanum í nokkrar vikur á undan.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Ég man nú ekki eftir neinu vandræðalegu. Ég get aftur á móti mælt með því að fólk panti borð á veitingastöðum og segist heita doktor hitt og þetta. Þegar ég panta sem „doktor Gunni“ fæ ég alltaf miklu betri sörvis en þegar ég panta sem „Gunni“.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Hér er úr vöndu að ráða því margt hefur maður nú rutt í sig sem bragð var að. Til að nefna eitthvað segi ég Babel á Kastanienallée í Berlin. Þetta er lítill líbanskur staður, gríðarlega heimilislegur. Fyrir um 20 evrur færðu „Babel platel“, sem er allskonar líbanskt fæði fyrir tvo. Ótrúlega gott og vel útilátið og í alla staði æðisgengið.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

New York City er höfuðborg heimsins og Hudson dalurinn er helvíti næs. París er nú ekkert slor heldur.

Það sem er mikilvægast á hótelherberginu:

Gott rúm, rafmagnsinnstunga og ég kann vel við það þegar boðið er upp á ketil og kaffi- og mjólkurduft.

Draumafríið:

Einhvern daginn þarf ég að komast suður fyrir miðbaug. Ég hef lengi verið áhugamaður um Ástralíu, Nýja Sjáland og Kyrrahafseyjarnar og vonandi kemst ég einn daginn þangað og get baðað mig í exótíkinni um stund.