Ferðaþjónustan ánægð með Obama

Vestanhafs önduðu ferðamálafrömuðir sennilega léttar þegar úrslit lágu fyrir í forsetakosningunum í síðustu viku.

Síðustu tíu ár hefur túristum í Bandaríkjunum farið fækkandi. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs mældust tekjur af erlendum ferðamönnum hins vegar ellefu prósent hærri en á sama tíma í fyrra. Þessa jákvæðu þróun skrifar ferðaþjónustan á fyrsta alþjóðlega kynningarátakið á Bandaríkjunum sem áfangastað fyrir ferðamenn. Hingað til hafa fylkin og borgirnar séð sjálfar um að koma sér á framfæri í útlöndum en stjórn Obama beitti sér fyrir því að fjárfest var í sameiginlegu átaki í Kanada, Bretlandi og Japan.

Samkvæmt frétt Daily Mail hefur forsetinn líka lagt til að slakað verði á kröfum um vegabréfsáritanir. Er talið að ferðamönnum frá Brasilíu, Kína og Indlandi muni fjölga mikið í framhaldinu.

Bandaríkin var eitt af þeim fimm löndum sem hafði mestar tekjur af ferðamönnum á síðasta ári. Hin löndin voru Spánn, Frakkland, Kína og Ítalía.

NÝJAR GREINAR: Leiðin frá Hvíta húsinu að hamborgarabúllu forsetafrúarinnar

Mynd: Whitehouse.gov