Fjögur félög til Oslóar

Baráttan um farþega á leið til höfuðborgar Noregs fer harðnandi með tilkomu Primera Air.

Allt árið um kring halda Icelandair, Norwegian og SAS úti áætlunarflugi héðan til Oslóar. Hið íslenska Primera Air blandar sér nú í baráttuna fram á vorið með hálfsmánaðarlegum ferðum frá 20. desember til loka janúar en vikulegu flugi í febrúar og mars. Samkvæmt tilkynningu frá félaginu kostar farið frá 9.900 krónum.

Aðeins Norwegian býður betur því ódýrustu miðarnir hjá því norska kostar rúmar níu þúsund krónur en við það bætist svo farangursgjald upp á 1.550 krónur.

Primera Air á sjö nýlegar Boeing flugvélar og flytur árlega um 800.000 farþega frá stærstu borgum í Skandinavíu til um 55 áfangastaða í 25 löndum samkvæmt því sem segir í tilkynningu.

TENGDAR GREINAR: Aukagjöld flugfélaganna eins og þau leggja sig

Mynd: Terje Bakke Pettersen/Visit Oslo