Gengið um söguslóðir Steinunnar í Berlín

Berlín er eitt af sögusviðum skáldsagnanna Jójó og Fyrir Lísu eftir Steinunni Sigurðardóttur. Gönguferðir höfundarins um Kreuzberg-hverfið hafa fengið góðar undirtektir ferðamanna.

Á sunnudaginn efna Berlínar-búarnir Steinunn Sigurðardóttir, rithöfundur og Júlía Björnsdóttir, stjórnmálafræðingur, til gönguferðar um söguslóðir skáldsagnanna Jójó og Fyrir Lísu eftir þá fyrrnefndu. Þetta uppátæki þeirra hófst sem skemmtun fyrir vini en hefur fengið góðar undirtektir og því ætla þær að halda göngunni áfram. Á sunnudaginn gefst fólki færi á að slást í hópinn og aftur þann 14. nóvember.

Fyrir Lísu, sem kemur út hjá Bjarti, er sjálfstætt framhald verðlaunabókarinnar Jójó, sem Steinunn sendi frá sér á síðasta ári, en sögusvið bókanna er meðal annars Kreuzberg-hverfið í Berlín. Það er núna eitt vinsælasta og eftirsóttasta hverfi borgarinnar. Hér gefst gestum kostur á að kynnast því út og suður, jafnt kirkjugörðum sem veitingastöðum, frá sjónarhorni heimamanna.

Það kostar 15 evrur á mann að taka þátt en aðeins 5 evrur fyrir handahafa stúdentaskírteinis. Göngufólk hittist við Südstern U-bahn (U7) kl. 12.30 sunnudaginn 4.nóv.

Nánari upplýsingar um gönguna og skráningu er að finna á fésbókarsíðu, eða hjá Júlíu Björnsdóttur (juliabjorns@gmail.com).

WOW air býður upp á ferðir til Berlínar í allan vetur en hingað til hefur flug til þýsku höfuðborgarinnar einskorðast við aðalferðamannatímabilið. Íslenskum túristum gefst því gott færi á að heimsækja heimsborginni með lága verðlagið næstu mánuði og um leið ganga um sögusvið bóka Steinunnar.

TENGDAR GREINAR: Vegvísir Berlín –  Ókeypis á netið í Berlín