Mesta og minnsta sætaplássið um borð

Flug til annarra landa tekur sjaldnast minna en þrjá tíma. Bil milli sæta getur því skipt miklu máli, sérstaklega fyrir þá sem eru yfir meðalhæð.

Það myndi skapast ófremdarástand á flugvélaganginum ef farþegarnir ætluðu reglulega að teygja úr sér. Flestir halda því kyrru fyrir í sætunum þrátt fyrir þrengslin. Aðstaðan er reyndar mismunandi eftir flugfélögum og jafnvel flugvélum. Þannig getur bilið milli sætisraða verið 71 til 81 cm hjá WOW air. Hjá Transavia, sem flýgur héðan til Parísar á sumarin, er bilið 71 cm í öllum tilvikum nema ef farþegarnir borga aukalega fyrir meira fótapláss.

Hjá Icelandair ganga farþegarnir að mesta plássinu vísu því það er ávallt 81 cm á ódýrasta farrýminu. Hjá Delta, SAS og WOW air getur það einnig verið svona mikið en það getur líka verið mun minna eins og í tilviki WOW air. Til samanburðar má nefna að bilið hjá Ryanair er 76 cm en það félag er betur þekkt fyrir lág verð en þægindi.

Nýir stólar og meira fótapláss

Sætisbil er lengdin milli stólbaka og er því vísbending um hversu mikið rými er fyrir fæturna. Gerð stólanna hefur líka sitt að segja og þannig mun fótaplássið í vélum Primera Air aukast um 5 til 6 sentimetra með nýjum sætum þó bilið á milli þeirra haldist óbreytt

Bilið milli sætisraða á ódýrasta farrými*:

Félag Bil milli raða
Airberlin/Niki 73,5 til 76 cm
Delta 79 til 81 cm
easyJet 73,5 cm
German Wings 73,5 cm
Icelandair 81 cm
Lufthansa 76 til 79 cm
Norwegian 73,5 cm
Primera Air 73,5 til 79 cm
SAS 76 til 81 cm
Transavia 71 cm
WOW air 71 til 81 cm.

 

 

 

 

 

 

 

 


*byggt upplýsingum frá félögunum

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: 5 ferðir í næstu viku á minna en 40 þúsund
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum í útlöndum og bókaðu hagstæðasta kostinn

Mynd: SAS