Ólík staða farþega við gjaldþrot flugfélaga

Óróinn í kringum flugfélagið SAS hefur fengið marga ferðalanga til að efast um stöðu sína ef félagið færi á hausinn. Staða farþega gjaldþrota flugfélaga er ólík eftir því hvar miðinn var keyptur.

Nú hefur gjaldþroti SAS, stærsta flugfélagi Norðurlanda, verið afstýrt. Félagið flýgur hingað fimm sinnum í viku frá Osló og margir sem kaupa tengiflug með SAS út í heim frá Kaupmannahöfn, Osló og Stokkhólmi. Það voru því óhætt að fullyrða að margir Íslendingar sem staddir voru í útlöndum síðustu daga hafi efast um hvort miðinn þeirra með SAS yrði í gildi þegar kæmi að heimferð.

Heim á eigin reikning eða seljandans

Ef rekstur félagsins hefði stöðvast þá væri staða farþeganna ólík eftir því hvar miðinn var keyptur. Þannig hefði farþegi sem keypti miðann hjá SAS þurft að koma sér heim fyrir eigin reikning og gera svo kröfu í þrotabú félagsins. Hins vegar hefði sá sem keypti farmiða hjá Icelandair, sem innihélt tengiflug með SAS, verið á ábyrgð íslenska félagsins sem hefði þurft að koma farþeganum heim á ný.

Áhætta að kaupa flugin í sitthvoru lagi

Líkt og Túristi fjallaði um nýverið þá er það félagið sem selur miðann sem er ábyrgt fyrir því að koma fólki á áfangastað og heim aftur. Skiptir þá engu máli hvort flugferðum hafi seinkað eða að flugfélagið sem átti að sjá um tengiflugið hafi farið á hausinn. Þeir sem kaupa flugið frá Keflavík og framhaldsflugið í sitthvoru lagi eru hins vegar á eigin vegum ef þeir missa af tengiflugi. Ódýrasta farið út getur því hæglega orðið fólki dýrkeypt.

TENGT EFNI: Tengiflug í súginn vegna seinkunarFarþegar gjaldþrota flugfélags eru illa settir

Mynd: SAS