SAS hættir sumarflugi frá Stokkhólmi

Síðasta sumar hóf SAS að fljúga beint milli Keflavíkur og sænsku höfuðborgarinnar. Ekki verður framhald á næsta sumar en félagið heldur Oslóarflugi sínu áfram allt árið.

Yfir aðalferðamannatímann í ár flaug SAS fjórum sinnum í viku milli Keflavíkur og Arlandaflugvallar í nágrenni Stokkhólms. Icelandair hefur lengstum verið eina félagið sem hefur séð sér hag í að fljúga þessa leið. Svo verður áfram því talskona SAS í Svíþjóð staðfestir við Túrista að félagið ætli ekki að halda áfram beinu flugi frá Stokkhólmi til Íslands næsta sumar. SAS flýgur hins vegar allt árið um kring milli Keflavíkur og Osló.

Mikil fjölgun Íslendinga í Stokkhólmi

Það heimsóttu Ísland rúmlega fimmtán þúsund Svíar í sumar. Það er aukning nærri þrettán prósent frá sama tíma í fyrra. Hvort Svíarnir hafi flogið í gegnum Arlanda, Gautaborg eða jafnvel Kaupmannahöfn kemur ekki fram í tölum Ferðamálastofu Íslands. Gistinóttum Íslendinga í Stokkhólmi fjölgaði hins vegar um rúmlega þriðjung í sumar í samanburði við árið 2011 samkvæmt tölum ferðamálaráðs borgarinnar. Það hafa því miklu fleiri Íslendingar lagt leið sína til sænsku höfuðborgarinnar í sumar en árið á undan. Auknar flugsamgöngur hafa líklega haft þar sitt að segja.

Líkt og Túristi sagði frá í gær þá ætlar Delta að fjölga ferðum sínum hingað næsta sumar en hið þýska Airberlin dregur aðeins úr sínu Íslandsflugi.

TENGDAR GREINAR: Delta festir sig í sessiAirberlin dregur úr ferðum
NÝJAR GREINAR: Gengið um söguslóðir Steinunnar í Berlín

Mynd: Ildikó Lukács/imagebank.sweden.se