Skítugustu viðkomustaðir ferðalanga

grand central

Fimm varhugaverðir hlutir sem laða bæði að sér bakteríur og ferðamenn.

Veikindi geta því miður sett mark sitt á utanlandsferðina. Samkvæmt höfundum Lonely Planet ferðabókanna þá ættu ferðamenn að vera á varðbergi á þessum stöðum til að minnka líkurnar á smiti.

Flugvélaklósett

Þó salerni í flugvélum séu alla jafna snyrtileg að sjá þá leynast þar víða bakteríur. Ástæðan er sú að vaskurinn er rétt við klósettskálina og það býður hættunni heim að sögn Lonely Planet. Eins komast farþegarnir ekki hjá því að skvetta vatni út fyrir þegar þeir þvo sér um hendurnir því vaskurinn er lítill. Þá verður til fín gróðrarstía allt í kringum handlaugina því bakteríurnar kunna best vel við sig á rökum svæðum.

Almenningssamgöngur

Strætisvagnar og lestir í útlöndum eru alla jafna þétt skipaðar og á hverjum degi skilja því þúsundir manna eftir sig slóð í vögnunum. Handföng, slár og stansrofar eru þakktir bakteríum og því góð regla að bera á sig spritt eftir ferðalagið. Samkvæmt Lonely Planet er líka hætta á að leyfar eftir saur finnist í sætunum.

Lyklaborð

Að nota almenningstölvur, til dæmis á internetkaffihúsum og hótelum, jafnast á við að strjúka puttunum eftir klósettsetu segir Leif Pettersen sérfræðingur Lonely Planet í þessum málaflokki. Ástæðan er sú að lyklaborðin eru sjaldan þrifin og eins er erfitt að hreinsa þau mjög vel.

Peningar

Heilbrigðisstofnun New York borgar fann eitt sinn 135.000 bakteríur á skítugum dollaraseðli en þeir bandarísku eru víst sérstaklega skítugir því þeir eru aðeins úr pappír en ekki plastblöndu líkt og þeir áströlsku. En á þeim fer víst bakteríufjöldi, per rúmsentimetra, niður í allt að tíu.

Annað fólk

Ástæðan fyrir því að klósettin, strætisvagnanir, lyklaborðin og peningarnir verða svona skítugir er sú að notendurnir hafa óhreinkað þá. Könnun sem gerð var meðal farþega á stórum lestarstöðvum í New York leiddi í ljós að aðeins 49 prósent farþega hafði þvegið sér um hendurnar eftir að hafa farið þar á klósettið.

Við þetta má svo bæta að nýleg rannsókn leiddi í ljós að skítugasti hluturinn inn á hótelherbergjum er sjónvarpsfjarstýringin.

Þar sem við komumst varla hjá því að halda okkur fast í strætó, nota flugvélaklósett og handleika peninga þá er sennilega lítið annað að gera en að loka augunum fyrir þessum hættum. Góður handþvottur og spritt geta þó vafalítið minnkað líkurnar á að sóðaskapur annarra spilli utanlandsreisunni.