Stundvísitölur: Töluverðar tafir hjá WOW

Yfirtaka WOW air á flugáætlun Iceland Express olli mikilli röskun á ferðum félagsins.

Þó sex af hverjum tíu ferðum WOW air, til og frá Keflavík, hafi haldið áætlun síðustu tvær vikur þá var meðalseinkunin 49 mínútur. Það voru komutímar sem brengluðust oftar en brottfarirnar.

Þegar WOW tók Iceland Express yfir fjölgaði ferðum þess töluvert og höfðu forsvarsmenn félagsins varað við seinkunum á heimasíðu sinni í kjölfar breytinganna.

Icelandair hélt áætlun í 85 prósent tilvika og tafirnar voru að jafnaði fjórar mínútur. Brottfarir félagsins voru á réttum tíma í langflestum tilfellum líkt og verið hefur síðustu mánuði. Félagið varð að hætta við nokkrar ferðir til austurstrandar Bandaríkjanna í vikunni en flug sem eru felld niður eru ekki tekin með í stundvísitölurnar.

Síðasta ferð Iceland Express

Þegar Túristi hóf að reikna út stundvísi í millilandaflugi hér á landi í fyrra þá var áberandi hversu illa Iceland Express gekk að halda áætlun. Í byrjun ársins urðu seinkanir hinsvegar undantekning hjá félaginu og það var oft stundvísari en keppinautarnir líkt og forsvarsmönnum Iceland Express varð tíðrætt um síðustu misseri. Félagið hélt uppteknum hætti fram að lokun þó síðustu ferðinni héðan hafi reyndar seinkað um rúman hálftíma.

SAS, Primera Air, Norwegian, easyJet og Air Greenland flugu líka milli Íslands og útlanda á tímabilinu en ferðirnar voru nokkru færri en íslensku félaganna.

Stundvísitölur seinni hluta október

16.-31.okt. Hlutfall brottfara á tíma Meðalseinkun brottfara Hlutfall koma á tíma Meðalseinkun koma Hlutfall ferða á tíma Meðalseinkun alls Fjöldi ferða
Icelandair 93% 3 mín 77% 4 mín 85% 4 mín 584
Iceland Express 84% 2 mín 95% 1 mín 90% 1,5 mín 41
WOW air 72% 35 mín 50% 62 mín 61% 49 mín 60

Um útreikningana: Daglega reiknar Túristi út hversu mikill munur er á áætluðum komu- og brottfaratímum og þeim tímasetningum sem gefnar eru upp fyrir lendingar og flugtak á heimasíðu Keflavíkurflugvallar. Þar sem seinkun um korter telst vera innan skekkjumarka í fluggeiranum þá eru fimmtán mínútur dregnar frá öllum seinkunum. Flug sem tefjast um minna en stundarfjórðung teljast vera á áætlun.

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: EasyJet mun dýrari en Icelandair og WOW
TENGDAR GREINAR: Tengiflug í súginn vegna seinkunar –  Stundvísitölur fyrri hluta október