Eru þetta ódýrustu flugmiðar vorsins?

Þó verðstríði Iceland Express og WOW air sé lokið þá er enn hægt að fá flug til útlanda fyrir minna en tíu þúsund.

Ísland er ekki í alfaraleið og því tekur sjaldnast minna en þrjá tíma að fljúga á meginland Evrópu. Það er því kannski eðlilegt að lægstu fargjöld hér á landi séu oft hærri en tombóluprísar lággjaldaflugfélaganna í Evrópu. Verðstríð Iceland Express og WOW air síðastliðið sumar lækkaði hins vegar verð á farmiðum töluvert en afleiðingin varð sú að eigendur fyrrnefnda félagsins gáfust upp. Það er því ekki víst að fargjöld næsta árs verði í takt við það sem bauðst nú í sumar. Eða hvað? Túristi hefur nefnilega fundið fjórar ferðir til útlanda í vor þar sem farið fram og tilbaka kostar undir tuttugu þúsund.

Edinborg: 19.319 kr.

Í lok mars hefur easyJet flug héðan til höfuðborgar Skotlands. Borgin var nýlega valinn fremsti ferðamannastaður Evrópu og hefur það orð á sér að vera í ódýrari kantinum. Dagana 25. til 29. apríl er hægt að fá far með breska lággjaldaflugfélaginu fyrir rúmar nítján þúsund krónur. Lesendur Túrista fá sérkjör á gistingu í Edinborg eins sjá má hér.

London: 18.904 kr.

Fulham og Tottenham eiga bæði heimaleik í London 4. maí en hægt er að fljúga til borgarinnar 2. til 7. þess mánaðar með easyJet fyrir tæpar nítján þúsund krónur. Til að finna ódýrustu gistinguna í borginni mælir Túristi með leitarvél HotelsCombined (smellið hér).

Osló: 18.565 til 19.800 kr.

Höfuðborg Noregs er alla jafna í einu af efstu sætunum yfir dýrustu ferðamannaborgir í heimi. Það er því kostur að komast þangað hræódýrt í vor. Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian flýgur þangað þrisvar í viku og 11. til 14. apríl er hægt að komast með félaginu fyrir aðeins 18.565 krónur. Heimsferðir bjóða farið á tæplega tuttugu þúsund krónur dagana 14. til 18. mars. Til að gera verðsamanburð á gistingu í Osló smellið þá hér.

Verðin voru fundin á heimasíðu félaganna 4. desember og hafa ber í huga að Norwegian og easyJet rukka aukalega fyrir innritaðan farangur. Upplýsingar um aukagjöld flugfélaganna má finna í þessari samantekt Túrista.

NÝJAR GREINAR: Júlía á heimavelli í BerlínIcelandair með 83 prósent af ferðunum

Mynd: VisitScotland/ScottishViewpoint