Ferðaminningar Sigurbjargar Þrastardóttur

Sigurbjörg Þrastardóttir er margverðlaunað ljóðskáld og rithöfundur sem nýlega gaf út skáldsöguna Stekk. Stekk fjallar um Alexöndru Flask sem íhugar að stökkva fram af svölum litlu íbúðarinnar sem hún leigir í Barselónu. Þrátt fyrir hitabylgju í borginni er þrálátt kul í hjartanu – harmi blandin sektarkennd – og ekki bætir úr skák að hömlulaust ástarlíf annarra gegnsýrir hversdaginn. Sigurbjörg lumar á nokkrum skemmtilegum ferðasögum sem hún deilir hér með lesendum Túrista.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Fyrstu utanlandsferðinni minni – til Ibiza – er erfitt að gleyma, þótt ég hafi bara verið fimm ára. Þar lenti ég nefnilega í töluverðum háska eftir óvænt áhættuatriði sem ég framkvæmdi á hótelherberginu. Við vorum ekki búin að vera nema tvo eða þrjá daga á vettvangi og vorum á leið í sund í fyrsta sinn, fjölskyldan, þegar ég hljóp á töluverðri ferð í gegnum svaladyrnar sem voru úr gleri. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því að þær voru lokaðar, og þar sem ég var á sundbol einum fata skarst ég hressilega hér og þar um líkamann og mátti hvorki fara í sjóinn né sundlaugina það sem eftir var þriggja vikna dvalarinnar. Það reyndi dálítið á fimm ára þolrif.

Það sem ég geri til að láta tímann líða hraðar í flugvélinni:

Helst vil ég að tíminn líði hægar í flugvélum, því það geta verið þægilegustu staðir heims (ef hitastigið er rétt, sessunautar rólegir og flugliðarnir ekki mikið að æpa í tilkynningakerfið). Þá er frábært að lesa, skrifa, hugsa eða klessa nefið að rúðunni. Svo á ég mér alltaf eitthvert uppáhaldsdót um borð, einu sinni voru það blautu ilmklútarnir, því næst íslensku smjörstykkin sem ég kláraði alltaf í snatri ef ég hafði verið lengi erlendis. Um þessar mundir eru það öryggisbúnaðarkortin.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Þær skipta tugum, ég hef líklega farið hátt í hundrað sinnum til útlanda á ævinni og nánast aldrei lent í ómögulegri ferð. Draumkenndasta ferðin var í fyrrasumar þegar ég vaknaði upp í Kólumbíu á stærstu ljóðahátíð sem ég hef tekið þátt í – og framandleikinn var slíkur að ég kunni ekki að nefna einn einasta ávöxt á morgunverðarhlaðborðinu. Lengsta vel heppnaða ferðin er árið sem ég dvaldi á Ítalíu og græddi bæði tungumál og stórfjölskyldu – og merkilegasta ferðin var líklega til Serbíu og Króatíu þar sem ég gekk í fóstbræðralag með nokkrum jafnöldrum mínum í rithöfundastétt sem ólust upp í stríðinu á Balkanskaga.

Tek alltaf með í fríið:

Þvottaklemmur, ullarsokka, verkjatöflur, strigaskó, kodda, eldspýtur, bók og hárnæringu sem ég óttast að fáist hvergi. Annars finnst mér ég satt að segja aldrei fara í frí, ég á oftast eitthvert erindi.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Hér væri líklega úr ýmsu að velja, ef maður væri ekki búinn að grafa það í gleymskunnar dys. En það eru ekki mörg ár síðan ég sat hágrátandi á Kastrup-flugvelli og harðneitaði að ganga um borð í vélina heim. Ég var með grimma kinnholu- og ennisholusýkingu og hafði þegar flogið tvo leggi þann daginn, með þeim skerandi sársauka sem fylgir flugtaki og lendingu í slíku ástandi. Sá alls ekki fram á að geta meir og öðlaðist í þessari ferð fullan skilning á sárum gráti kornabarna í flugvélum, sem eru kannski kvefuð eða illa fyrirkölluð og geta ekki lýst því hvernig þeim líður.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Peking-öndin í Peking var ótrúleg, sem er í raun ekki sjálfgefið, enda eru franskar í Frakklandi ekkert endilega spes, eða hamborgarar í Hamborg. Oftast er þetta tómur misskilningur, þetta með nafngiftir rétta, en Kínverjarnir stóðu sig furðulega vel. Þeir klikkuðu ekki einu sinni á kínakálinu.

 

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Tilteknar svalir í Barcelona, tiltekið kaffihús í Berlín, tiltekin gata í Buenos Aires og tiltekið torg í Bologna. Um suma af þessum stöðum hef ég skrifað, ýmist nokkur orð eða heilu kaflana. Ætli væri ekki hægt að gera úr þessu ferðagetraun?

Það sem er mikilvægast á hótelherberginu:

Að loftkælingin sé með slökkvara sem hægt er að finna.

Draumafríið:

Mér var nýlega gefin ljósmynd af stúlku í hengirúmi á fagurri strönd og í myndatextanum stóð að hún væri af mér. Þar liggur svarið.