Ferðaminningar Stefáns Mána

Nýlega kom út spennutryllirinn Húsið eftir Stefán Mána rithöfund sem hefur slegið í gegn hjá bæði gagnrýnendum og lesendum. Stefán Máni er iðinn höfundur, sendir frá sér þykka bók árlega en hann gefur sér þó tíma til ferðalaga og deildi með lesendum Túrista ferðaminningum sínum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

18 ára stökk ég til og keypti miða í hópferð á Donington-hátíðina á Englandi, sem eru risavaxnir þungarokkstónleikar. Ég fór einn en í ferðinni kynntist ég strákum sem urðu ferðafélagar mínir til Bandaríkjanna á næstu árum, auk þess sem vinaböndin halda enn þann dag í dag. Á þessum tónleikum á Englandi spiluðu meðal annarra Guns N Roses og Iron Maiden og dóu tveir áhorfendur áður en yfir lauk. Þetta var skítug, sveitt, erfið og ógleymanleg reynsla.

Það sem ég geri til að láta tímann líða hraðar í flugvélinni:

Horfa á bíómyndir.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Ætli það hafi ekki verið Ítalíuferðin mín í fyrra. Ég var boðin á bókmenntahátíð í sjávarbænum Lerici en byrjaði og endaði ferðina í Mílanó, keyrði um Toscana-hérað og skrapp til Pisa í regnstormi. Allt var framar væntingum í ferðinni; fólkið, maturinn, náttúran og ég veit ekki hvað – ég einfaldlega féll fyrir ítalíu! En þetta er samt bara ein af mörgum vel heppnuðum utanlandsferðum.

Tek alltaf með í fríið:

Vinnuna … og góða skapið!

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Hm. Einu sinni var ég fastur í öryggisleit á Kennedy flugvelli vegna þess að málmleitartækið pípaði alltaf. Ég var tekinn í ítarlegri leit, ég skannaður með handfrjálsum búnaði sem pípaði alltaf þegar öryggisvörðurinn, þrekvaxinn blökkumaður, renndi honum yfir brjóstið á mér. „Hey, this one got a heart of stone!“ kallaði hann digurbarkalega og hló. Ég slapp þó í gegn á endanum. Sönn saga!

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Auðvelt! Jólaöndin sem ég fékk á miðaldaveitingastað í miðbæ Wroclaw í Póllandi – hálf ofnsteikt önd með heitu rauðkáli, alls kona rmeðlæti, heitri sósu og svampkenndum kartöflum. Hver einasti munnbiti var heilt ævintýri og ég táraðist næstum af gleði.

Það sem er mikilvægast á hótelherberginu:

Baðkar, góðar sápur, sjónvarp með videóleigu og minibar með alls konar.

Draumafríið:

Egyptaland; að sigla niður Níl og skoða píramídana eftir myrkur.