2 nýjar flugleiðir á næsta ári

Í ár voru það Denver í Colorado og Lyon í Frakklandi sem bættust við leiðakerfi Keflavíkurflugvallar. Næsta sumar bætast aftur tvær í púkkið.

Það er líklegt að ferðamönnum frá Alaska og Rússlandi fjölgi hér á næsta ári því Icelandair hefur áætlunarflug til nyrstu borgar Bandaríkjanna, Anchorage, í sumar og einnig til Sankti Pétursborgar í Rússlandi. Þetta verður í fyrsta skipti sem flogið verður héðan reglulega til Alaska og Rússlands og væntanlega munu margir íslenskir túristar nýta sér það. Flogið verður tvisvar í viku til beggja þessara borga yfir sumarmánuðina. Hér er það sem helst heillar ferðalanga á þessum nýju áfangastöðum.

Anchorage

Útivistarfólk mun væntanlega fjölmenna í vélar Icelandair til Alaska því tveir þriðju hlutar landsvæðisins í fylkinu eru verndarsvæði þar sem ekki má byggja. Það þarf því ekki langt út fyrir bæjarmörkin til að finna ósnert víðerni og fjölbreytt dýralíf.

Það var mikill uppgangur í Alaska á níunda áratugnum og þá var mikið byggt í Anchorage og er hún fjölmennasta borg fylkisins með um þrjú hundruð þúsund íbúa. Borgin hefur víst upp á ýmislegt að bjóða og mælir ferðabók Frommers sérstaklega með söfnunum Alaska Native Heritage Center og Anchorage Musuem sem bæði gera sögu fylkisins og íbúanna góð skil. Það mun einnig vera nóg af veitingastöðum og verslunum í Anchorage fyrir þá sem vilja taka sér hlé frá útivistinni en ekki er víst að úrvalið í búðunum heilli alla Frónbúa því íbúar Anchorage voru nýlega kjörnir verst klæddu íbúar Bandaríkjanna af ferðablaðinu Travel&Leisure.

Icelandair mun fljúga til Anchorage á miðvikudögum og sunnudögum frá 15. maí til 15. september. Lægsta farið út er á 53.440 krónur.

HÓTEL: Finndu ódýrustu gistinguna í Anchorage

Sankti Pétursborg

Það var ætlun Péturs mikla að reisa glæsilega borg þegar hann lagði drög að Sankti Pétursborg á fenjasvæði í vesturhluta ríkisins. Honum tókst ætlunarverkið því borgin hefur lengi verið talin með fegurri borgum Evrópu enda var engu til sparað og þrælar keisarafjölskyldunnar færðu miklar fórnir til að gera draum Péturs mikla að veruleika. Þekktustu byggingar borgarinnar eru skrautlegar að innan sem utan og þar fá söguáhugamenn heilmikið fyrir sinn snúð.

Sælkerar, listunnendur og næturhrafnar fá líka útrás í borginni en þeir sem vilja komast hjá því að borga of mikið fyrir matinn og drykkina ættu víst að forðast staði þar sem splunkunýjar glæsikerrur standa í röðum fyrir utan.

Fyrsta flug Icelandair til Sankti Pétursborgar fer í loftið laugardaginn 1. júní og síðasta vél sumarsins fer þriðjudaginn 17. september. Ódýrasta fargjaldið til Rússlands er 26.780 krónur.

HÓTEL: Finndu ódýrustu gistinguna í Sankti Pétursborg

Það er ólíklegt að fleiri nýir áfangastaðir bætist við áætlanir flugfélaganna fyrir árið 2013. Sumaráætlanir ferðaskrifstofanna liggja enn ekki fyrir en þar gætu leynst nýjungar.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Rússlandsreisan hefst í Túngötu
TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í London5% afsláttur á hóteli í Kaupmannahöfn

Mynd: Archer10/Creative Commons