Skóeftirlitið mesta skapraunin

Líkamsleit og nektarskannar við öryggishlið ergja bandaríska flugfarþega minna en að þurfa að fara úr skóm. Þar í landi er eftirlit með fótabúnaði þó minna en á Keflavíkurflugvelli.

Farþegar vestanhafs hafa meiri andstyggð á skóeftirliti í flughöfnum en að láta öryggisvörð leita á sér eða þurfa að stíga inn í líkamsskanna. Ekkert öryggisatriði fer eins mikið í taugarnar á farþegum eins og að þurfa úr skóm. Þetta kemur fram í könnun sem samtökin US Travel gerðu og Túristi hefur fengið aðgang að. Forsvarsmenn flugöryggisstofnunnar Bandaríkjanna, TSA, sýna gagnrýni á skóeftirlitið fullan skilning því í nýlegri grein New York Times, þar sem m.a. er fjallað um könnunina, kemur fram að á heimasíðu stofnunarinnar segi að skimun á skóm sé tímafrek, tefji fyrir afgreiðslu í öryggishliði og valdi óánægju. Þetta er öfugt við upplifun íslenskra flugmálayfirvalda því í svörum þeirra við fyrirspurnum Túrista segir að það flýti fyrir að láta alla fara úr skóm. Í Bandaríkjunum eru reglurnar hins vegar ekki eins strangar því þar mega börn og eldri borgarar ganga í skóm í gegnum málmleitartæki. Víðast hvar í Evrópu er eftirlitið handahófskennt og t.a.m. áætla yfirmenn Kaupmannahafnarflugvallar að aðeins fimm prósent farþega þurfi úr skóm þar á bæ.

Minnast ekki á hina ítarlegu skoðun á heimasíðunni

Þrátt fyrir að skóeftirlitið sé strangara á Keflavíkurflugvelli en í Bandaríkjunum og flestum, ef ekki öllum, löndum Evrópu eins og Túristi hefur áður fjallað um (sjá hér) þá er ekki minnst á það á heimasíðu flugvallarins. Aðspurður segir talsmaður Isavia að ekki hafi verið haft fyrir því að setja þessar upplýsingar inn vefsíðuna en það sé nú til athugunar. Þess ber að geta að eftirlit með skóm flugfarþega hefur verið stundað í um áratug og á vefsíðum fjölda flugvalla segir að farþegar megi búast við því að þurfa úr skóm. Flugmálayfirvöld á Spáni ganga jafnvel svo langt að biðja fólk fyrirfram afsökunar á þeim óþægindum sem það kann að valda.

Ekkert bólar á endurkoðun reglnanna

Túristi hefur fjallað um hið stranga skóeftirlit á Keflavíkurflugvelli síðan í ágúst 2011 og í sumar gaf Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, það út að reglurnar yrðu endurskoðaðar í haust. Ekkert hefur komið út úr þeirri vinnu samkvæmt upplýsingum úr ráðuneytinu.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TENGDAR GREINAR: Bandaríkjamenn slaka á reglum en Íslendingar ekki75 prósent telja eftirlitið í Keflavík of strangt
HÓTEL: Finndu ódýrustu gistinguna í Bandaríkjunum10% afsláttur á gistingu í London

Mynd: Icelandair