Þráðlaust net í stað tíkallasíma

Nú komast túristar í New York á netið út á götu án þess að símareikningurinn hækki upp úr öllu valdi. Reykjavíkurborg ætlar einnig að bjóða upp á frítt net á næsta ári.

Það eru líklega margfalt fleiri með farsíma í vasanum en klink. Þeir sem vilja hringja taka því frekar upp símann sinn í stað þess að leita eftir tíkallasíma. Það sama gildir vafalítið um ferðamenn jafnvel þó það geti verið mjög dýrt að hringja heim frá útlöndum. Í New York ætla yfirvöld hins vegar að reyna að gera túristum dvölina þar ögn ódýrari með því að setja upp þráðlaust net og upplýsingaskjái þar sem áður voru almenningssímar. Túristar sem eiga snjallsíma geta því nýtt netsambandið þar til að hringja frítt og senda skilaboð, t.d. með forriti eins og Viper. Samkvæmt frétt Politiken er áformað að hátt í 250 tíkallasímum á Manhattan verði breytt í nýmóðins samskiptastanda á næstu mánuðum.

Líka heitir reitir í Reykjavík

Líkt og Túristi greindi frá nýverið þá eru yfirvöld í höfuðborg Þýskalands í álíka átaki og þau í New York. Í London er víða komið netsamband á lestarstöðvum og í Reykjavík er stefnt á að bjóða upp á frítt netsamband í kringum nokkra af vinsælustu ferðamannastöðunum í miðborginni fljótlega eftir áramót samkvæmt heimildum Túrista. Reykjavík skipar sér þannig í röð með þeim borgum sem fyrst bjóða upp á frítt net á því svæði sem ferðamenn halda sig mest. Keflavíkurflugvöllur hefur hins vegar dregist verulega aftur úr því líkt og sagt var frá hér á síðunni í haust þá er frítt net á öllum stærstu flugvöllum Norðurlanda en ekki í Leifsstöð.

Fylgstu með Túrista á Facebook

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á gistingu og bóðkaðu besta kostinn

 

Mynd: City24x7