Vægi erlendra flugfélaga minnkar

Það er útlit fyrir að fjöldi ferða erlendra flugfélaga hingað til lands standi í stað næsta sumar. Icelandair hyggst hins vegar fjölga vikulegum ferðum sínum um átján.

Í júlí síðastliðnum stóðu erlend flugfélög fyrir sjöundu hverji brottför frá Keflavíkurflugvelli eða 53 á viku. Næsta sumar stefnir í að ferðunum fjölgi um aðeins eina samkvæmt talningu Túrista. Icelandair ætlar hins vegar á fjölga vikulegum ferðum um átján næsta sumar og útlit er fyrir að WOW air muni fara langt með að fljúga álíka oft og félagið og Iceland Express gerðu samanlagt yfir aðalferðamannatímabilið í ár. Það stefnir því í að hlutdeild erlendra félaga af flugumferðinni til og frá landinu muni minnka töluvert næsta sumar en hún var fjórtán prósent í júlí síðastliðnum.

Hvatakerfi fjölgar ekki flugleiðum

Þau flugfélög sem hefja flug á nýja staði geta fengið felld niður lendingar- og farþegagjöld hér á landi samkvæmt hvatakerfi Keflavíkurflugvallar. Áður hefur komið fram að easyJet nýtur þess háttar kjara vegna flugs til London því félagið notast við Luton flugvöll og uppfyllir þannig kröfur kerfisins að mati forsvarsmanna Isavia.

Túristi hefur leitað eftir upplýsingum hjá Isavia um hvort önnur flugfélög njóti sambærilegra kjara en talsmaður þess vill ekki upplýsa um það og vísar í staðinn á flugfélögin sjálf. Upplýsingafulltrúi Norwegian segir í samtali við Túrista að félagið láti ekkert uppi um kjör sín.

 

 

Mynd: Wikicommons