Aðeins í Leifsstöð borgar fólk fyrir netsamband

Á flugstöðvum hinna Norðurlandanna er frítt netsamband. Á Flugstöð Leifs Eiríkssonar þarf hinsvegar að greiða fyrir tenginguna og ekki liggur fyrir hvort eða hvenær farþegum hér á landi bjóðast sambærileg kjör og í nágrannalöndunum.

„Hið fría, ótakmarkaða og hraða netsamband á flugvellinum hefur svo sannarlega slegið í gegn. Viðbrögðin sem við höfum fengið, mest frá erlendum farþegum, eru mjög jákvæð“, segir Markus Haapamäki, talsmaður flugvallarins í Helsinki, þegar Túristi spurðist fyrir um reynslu þeirra af því að bjóða upp á frítt net. Markus segir ókeypis tengingu vera hluta að hefðbundinni þjónustu við farþega og gott dæmi um hvernig Finnar sjái hlutina. „Fyrir okkur er sjálfsagt að komast gjaldfrjálst á netið á almenningsstöðum“, bætti hann við.

Yfirvöld í Noregi líta hlutina sömu augum því á heimasíðu Avinor, rekstraraðila norskra flugvalla, segir að farþegarnir hafi klárlega væntingar um að fá þessa þjónustu án endurgjalds. Í Svíþjóð hafa forsvarsmenn þarlendra flugvalla líka innleitt frítt net og í samtali við Túrista segist talsmaður Arlanda í Stokkhólmi að þjónustan hafi fengið mjög góð viðbrögð. Í Danmörku er sömu sögu að segja og samkvæmt því sem Túristi kemst næst bjóða að lágmarki um áttatíu norrænar flugstöðvar upp á fría nettengingu en þó í mismunandi útfærslum.

Ekkert gerst á Íslandi

Hlutfall tengifarþega er hátt í Leifsstöð eða um 18 prósent og samkvæmt talningu Ferðamálastofu stóðu íslenskir farþegar undir um þriðjungi brottfara frá landinu í fyrra. Miðað við reynslu Finna þá myndu fjölmargir farþegar í Keflavík fagna því ef boðið yrði upp á samskonar þjónustu hér og fólk á að venjast meðal frændþjóðanna. Í dag kostar það hins vegar að lágmarki 490 krónur að tengjast netinu á Keflavíkurflugvelli og samkvæmt upplýsingum frá Isavia, rekstraraðila flugvallarins, er verið að leita hagkvæmra og góðra lausna til að auka þjónustu við farþega, eins og það er orðað í svarinu. Ekki fæst hins vegar staðfest hvað verður gert og hvenær.

Löng bið eftir snjallsímaforriti

Líkt og áður hefur komið fram hér á síðunni þá bjóða flestir flugvellir í Evrópu upp á frí snjallsímaforrit (app) þar sem meðal annars er hægt er að fylgjast með breytingum á komu- og brottfarartímum, fá upplýsingar um biðtíma í öryggishliði og tilboð í verslunum og veitingastöðum. Allir helstu flugvellir nágrannalandanna hafa gefið út þess háttar forrit en ekki Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Reyndar fékk Túristi þær upplýsingar frá Isavia haustið 2011 að vinna væri hafin við að þróa símaforrit sem taka ætti í notkun árið eftir. Það gekk ekki eftir en líkt og með fría netið þá er verið að skoða lausnir varðandi þessa þjónustu á Keflavíkurflugvelli.

TENGDAR GREINAR: Hætta að skoða alla skó á KeflavíkurflugvelliFarþegum fjölgaði mest hér á landi
TILBOÐ: 10% afsláttur af gistingunni í London og Edinborg

Mynd: Wikicommons