Ferðafrömuðir í Berlín fíla Bowie

Í síðustu viku hélt tónlistarmaðurinn David Bowie upp á sextíu og sex ára afmælið með því að gefa út lag þar sem hann rifjar upp daga sína sem Berlínarbúa.

Öllum að óvörum sendi breski tónlistarmaðurinn David Bowie frá sér nýtt efni á þriðjudaginn en til hans hefur varla spurst í mörg ár.

Tónlistarspekúlantar eru ekki allir sannfærðir um nýjasta útspil gamla mannsins en forsvarsmenn ferðamála í Berlín eru himinlifandi. Í laginu lítur Bowie nefnilega um öxl og syngur um veru sína í þýska höfuðstaðnum undir lok áttunda áratugarins. Potsdamer Platz, dískótekið Dschungel og vöruhúsið KaDeWe koma meðal annars við sögu og í myndbandinu má sjá svipmyndir frá Berlín. Í The Telegraph er haft eftir talsmanni ferðamálaráðs borgarinnar að hann sé sannfærður um að þessi óvænta athygli muni hafa jákvæð áhrif á straum ferðamanna til borgarinnar.

Á slóðir söngvarans

Þeir íslensku Bowie aðdáendur sem vilja kynna sér nánar líf goðsins í Berlín geta bókað tveggja tíma túr um Hansa stúdíóið, þar sem Bowie og fleiri tóku upp, hjá honum Fritz. Að því loknu er hægt að snæða á Paris Bar þar sem margir frægir hafa skolað matnum niður með Absinth og að lokum kannað stemmninguna á klúbbunum So36 og Luzia en þar litu Bowie og vinir hans oft við. Dschungel dískóið er hins vegar ekki til lengur.

WOW air flýgur allt árið til Berlínar.

Hér er fyrir neðan má sjá Berlínarmyndabandið hans Bowie en leikstjóri þess segir að margir hafi haldið að það væri Björk Guðmundsdóttir sem situr þarna við hlið afmælisbarnsins. Glöggir lesendur sjá að svo er ekki.

 

TILBOÐ Í BERLÍN: 5% afsláttur á hótelíbúðum
HÓTEL: Finndu ódýrstu gistingu í Berlín

Mynd: Wikicommons