Ferðaminningar Brynhildar Pétursdóttur

Á ferð sinni til Tókýó rakst oddviti Bjartrar framtíðar í Norðausturkjördæmi á japanska prinsessu og fræddi hana um bækur eins þekktasta heiðursborgara Akureyrar. Brynhildur Pétursdóttir deilir hér nokkrum ferðasögum með lesendum.

Fyrsta ferðalagið til útlanda:

Þegar ég var 9 ára fórum við fjölskyldan í 3 mánaða ferðalag. Fyrst var keyrt á Seyðisfjörð í forláta Lödu og siglt til Færeyja og þaðan til Skotlands. Síðan var keyrt um Evrópu í einn mánuð og gist á tjaldsvæðum hingað og þangað. Frændfólk mitt að norðan var með í för og til að tryggja að við myndum ekki týna hvort öðru voru talstöðvar í báðum bílum sem stundum þurfti að grípa til. Við enduðum síðan í Svíþjóð þar sem við dvöldum í 2 mánuði.

Það sem ég geri til að láta tímann líða hraðar í flugvélinni:

Les eða horfi á þætti og myndir.

Best heppnaða utanlandsferðin:

Erfitt að gera upp á milli en ég býst við að vikan sem ég dvaldi í Tókýó með manninum mínum í miðju bankahruni 2008 sé með betri ferðum.

Tek alltaf með í fríið:

Vegabréf og kreditkortið. Þá er ég fær flestan sjó.

Vandræðalegasta uppákoman í útlöndum:

Ætli það hafi ekki verið þegar ég tók vitlausa ferðatösku á flugvelli, gott ef ekki í Brussel. Einhverra hluta vegna voru töskurnar teknar út úr vélinni á planinu og í myrkrinu tek ég tösku sem líkist minni. Eftir að hafa þrætt langa ganga er allt í einu kippt í mig og þá er það bálreiður eigandi töskunnar. Þá upphófst mikil leit að minni tösku sem fannst um síðir.

Besti maturinn sem ég hef smakkað á ferðalagi:

Allur matur sem ég hef borðað á Ítalíu er góður, get ekki gert upp á milli máltíða.

Uppáhalds staðurinn í útlöndum:

Það eru svo margir heillandi staðir til sem betur fer. Ætli ég segi ekki bara Suður-Evrópa eins og hún leggur sig.

Það sem er mikilvægast á hótelherberginu:

Gott rúm og snyrtilegheit.

Draumafríið:

Akkúrat núna væri ég til í að skipuleggja ferð með fjölskyldunni til Città delle Pieve sem er lítill bær í Úmbría héraði á Ítalíu. Vinur minn Stefano rekur þar gistingu ásamt stórfjölskyldunni og við heimsóttum hann árið 2006 og féllum alveg fyrir staðnum.