Fleiri ódýr hótel í Kaupmannahöfn

Flugmiðar til Kaupmannahafnar eru alla jafna með þeim ódýrari sem í boði eru hér á landi. Verðlagið er þó frekar hátt í borginni og það eru því góð tíðindi að danskir hóteleigendur fókusi á að opna ódýra gististaði.

Fyrir þremur árum var tekið í gagnið fimm hundruð herbergja hótel í Kaupmannahöfn sem kallast Wake up. Herbergin á þessum gististað við aðallestarstöðina eru lítil og kosta þau ódýrustu innan við átta þúsund íslenskar krónur. Það er lágt verð í borg þar sem gistinóttin kostar sjaldnast undir tuttugu þúsund krónum.

Þetta ódýra og einfalda hótel hefur fallið í kramið hjá ferðamönnum og því ætla eigendurnir að endurtaka leikinn í hinum enda miðborgarinnar, þ.e.a.s. rétt við Kóngsins nýjatorg. Samkvæmt frétt Politiken er áformað að opna nýja hótelið á næsta ári og verða herbergin um þrjú hundruð talsins.

Það er sonur stjörnuarkitektsins Jørn Utzon sem hannar nýja hótelið en hann sá líka um útlit Wake up.

Þeir lesendur Túrista sem kunna best við sig í nágrenni við Nýhöfn, Kóngins nýjatorg og Amalienborg fá lægsta verðið á ágætis hóteli í hverfinu og frían morgunmat í kaupbæti (sjá hér).

HÓTEL: Finndu besta prísinn á hótelum í Kaupmannahöfn
NÝJAR GREINAR: Til Kína fyrir minna en 100 þúsund

Mynd: Wake up