Fleiri rauðir dagar í ár

Þó nýliðið ár hafi verið gott þegar litið er til frídaga þá er nýja árið ennþá betra. Það var uppselt í jólaferðir til Kanarí.

Margir nýttu sér hið langa frí um hátíðirnar og fóru í sólarlandaferð til Kanarí og Tenerife. Hjá Úrval-Útsýn seldust mun fleiri ferðir í sólina um þessi jól en þau síðustu og hjá VITA voru sólarlandaferðirnar uppseldar samkvæmt upplýsingum frá ferðaskrifstofunum.

Hátíðardagarnir voru allir á virkum dögum um jól og áramót að þessu sinni en því var öfugt farið í hittifyrra þegar jólin voru um helgi. Reyndar var árið 2011 slæmt hvað frídaga varðar því þá lentu aðeins átta rauðir dagar á virkum dögum. Í fyrra voru þeir tíu en í ár eru þeir hvorki fleiri né færri en tólf talsins.

Löng vorferð með tveimur rauðum

Síðastliðið ár var sautjándi júní á sunnudegi en verður nú á mánudegi. Þeir sem ætla sér út í byrjun sumars en vilja spara sér frídag gætu skoðað utanlandsferðir yfir þjóðhátíðardaginn. Þeir sem geta ekki beðið svona lengi með að komast í betra veður ættu að íhuga frí í kringum fyrsta maí. Baráttudagur verkalýðsins er nefnilega á miðvikudegi en fimmtudaginn á undan, 25. apríl, er sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur er fimmtudaginn 9. maí. Hér gefst því gott tækifæri til að fara út í viku eða meira og spara sér tvo sumarleyfisdaga.

Þrír dagar í frí um næstu jól

Þeir sem ætla verja næstum jólum á sólarströnd verða að taka sér þriggja daga frí um hátíðirnar en síðast þurfti aðeins að nota tvo orlofsdaga. Það er kannski það eina sem síðasta ár hafði framyfir nýja árið þegar litið er til frídaganna.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í London
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð og bókaðu hagstæðasta hótelið

Mynd: Sindre Sørhus/Creative Commons