Flugrútan færð frá Leifsstöð

Rútur mega ekki lengur stoppa beint fyrir utan flugstöðina á Keflavíkurflugvelli og því þurfa farþegar að ganga yfir bílastæðin til að komast um borð.

Í sumar var lokað fyrir bílaumferð við anddyri komusalar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar til að tryggja öryggi á svæðinu samkvæmt upplýsingum frá Isavia, rekstraraðila vallarins. Þeir sem ætla með rútu til Reykjavíkur þurfa því að ganga yfir bílastæðin til að komast um borð í langferðabílana. Þessar breytingar voru gerðar í júlí þegar umferð bifreiða og fótgangandi var mikill á svæðinu. Í dag fara ríflega helmingi færri um Keflavíkurflugvöll en í sumar og veðrið mun verra nú en þá. Samt sem áður mun ekki standa til að flytja stoppistöð rútufyrirtækjanna á gamla staðinn. Í svari Isavia við fyrirspurn Túrista um málið segir að gengið sé eftir upplýstri og skýrt afmarkaðri gangstétt yfir bílastæðið og talið sé að núverandi fyrirkomulag hafi meira umferðaröryggi í för með sér.

Samkeppnin á enda

Tvö fyrirtæki standa fyrir áætlunarferðum milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar í dag en Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum hefur efnt til útboðs á þessari leið. Er ætlunin að veita einum aðila einkaleyfi á akstri að flugstöðvarbyggingunni því sérstæði við komusalinn er eyrnamerkt rútum þess sem best býður. Upphaflega stóð til að akstur samkvæmt nýja leyfinu hæfist í vor en í síðustu viku var sett lögbann á útboðið og því líklegt að núverandi fyrirkomulag muni verða við lýði langt fram á þetta ár. Það þýðir að þeir sem nýta sér áætlunarferðir til og frá Keflavíkurflugvelli þurfa áfram að ganga með farangurinn yfir bílastæðin í alls kyns veðrum.

Með nýja einkaleyfinu mun væntanlega draga úr samkeppni á þessari akstursleið og ólíklegt að verð muni lækka. Því í útboðsgögnunum er gert ráð fyrir að farið kosti 1950 krónur aðra leið en 3500 krónur báðar leiðir. Þetta eru sömu verð og Flugrútan býður í dag. Hins vegar er ekki gert ráð fyrir því í útboðsgögnunum að börn ferðist ókeypis og unglingar fái afslátt líkt og þau fá hjá báðum rútufyrirtækjunum í dag.

Fylgstu með Túrista á Facebook

TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í London
HÓTEL: Gerðu verðsamanburð og bókaðu besta kostinn

Mynd: Wikicommons