London nær nýjum hæðum

Það tekur lyftuna eina mínútu að komast á efstu hæðir hæstu byggingar Lundúna sem tekin verður í notkun eftir hálfan mánuð.

Það hefur verið nær ómögulegt að sjá allt það helsta í London á nokkrum dögum en nú opnast nýr möguleiki fyrir ferðamenn sem vilja komast yfir mikið. Föstudaginn fyrsta febrúar verður nefnilega tekinn í notkun fjögurra hæða útsýnispallur á 68. hæð háhýsins The Shard, sem er hæsta mannvirkið í London. Fyrir 24,95 pund (rúmar 5000 krónur) fá ferðamenn far með lyftunum upp í topp þessa 309,6 metra háa turns. Þaðan má virða fyrir sér öll helstu kennileiti borgarinnar og þeir djörfustu geta kíkt út á svalirnar á 72. hæð.

Íbúðir við toppinn

The Shard stendur við ánna Thames, ekki langt frá London Bridge og er því í alfaraleið. Það mun þó hafa gengið hægt að koma öllu plássinu í turninum í leigu en eigendurnir segja ástæðuna ekki vera skort á eftirspurn heldur hversu vandfýsnir þeir eru. Hótelkeðjan Shangri-La hefur þó fengið inni og mun opna þar tvö hundruð herbergja gististað í sumar. Á hæðunum fyrir neðan útsýnispallinn ætla nokkrir auðjöfrar að búa og turninn verður þar með hæsta íbúðahúsnæði í Evrópu.

Á heimasíðu View from the Shard má panta miða upp í útsýnispallinn.

TILBOÐ Í LONDON: 10% afsláttur af gistingu í London
HÓTEL: Finndu og bókaðu bestu kjörin á hótelum í London

Myndir: View from the Shard