Meira en milljarður túrista á síðasta ári

Í fyrra var sett met í fjölda ferðamanna og áframhaldandi aukningu er spáð í ár. Ísland var einn af hástökkvurunum.

Á heimsvísu fjölgaði ferðamönnum um 39 milljónir á síðasta ári og í fyrsta skipti voru þeir fleiri en einn milljarður talsins. Aukningin nemur fjórum prósentum á milli ára og var heildarfjöldinn einn milljarður og 35 milljónir samkvæmt tölum ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNWTO).

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna spá álíka vexti í ferðamannaþjónustunni á þessu ári og var á því síðasta.

Ein mesta viðbótin hér á landi

Evrópa var áfangastaður meira en helmings allra þeirra sem lögðu land undir fót í fyrra og jókst straumurinn þangað um þrjá af hundraði. Asía og Eyjaálfa bættu sig hins vegar mest milli ára eða um tæp 7 prósent. Þar voru ferðamenn 233 milljónir talsins en í Evrópu 535 milljónir.

Þegar bornar eru saman tölur fyrir minni svæði þá bættu Suðaustur-Asía, Norður-Afríka og Mið- og Austur-Evrópa sig mest eða á bilinu 8 til 9 prósent.

Minnsta breytingin milli ára var hins vegar í Norður-Evrópu því þar fjölgaði komum ferðamanna aðeins um 0,4 prósent. Tölur fyrir hvert land fyrir sig liggja ekki fyrir en í samtali við Túrista segir talsmaður ferðamálaráðs Sameinuðu þjóðanna að Ísland standi undir einu prósenti af heildarfjölda ferðamanna í N-Evrópu og hafi verið eitt þeirra landa sem hafi bætt sig mest milli ára eða um sautján prósent.

TILBOÐ: 5% afsláttur á hóteli í Kaupmannahöfn10% afsláttur í Edinborg
HÓTEL: Smelltu og gerðu verðsamanburð á hótelum í London

Mynd: Hans Peter Merten-Germany.travel