Ódýrara að fljúga í skíðaferð til Oslóar en Akureyrar

Næstu vikur eru flugmiðar til höfuðborgar Noregs ódýrari en bónussæti frá Reykjavík til höfuðsstaðs Norðurlands. Við borgarmörk Oslóar er stórt skíðasvæði þar sem lyftukortin kosta ögn minna en í Ölpunum en eru reyndar helmingi dýrari en í Hlíðarfjalli.

Fyrirheitna land óánægðra launþega lendir ósjaldan í einu af toppsætunum á listum yfir dýrustu áfangastaði ferðamanna. Það er því frekar dýrt að dvelja í Noregi en þegar flugið, báðar leiðir, með Primera Air til Oslóar kostar tæpar tuttugu þúsund krónur þá er hægt að fara þangað í frekar billega skíðaferð. Til samanburðar kostar skíðaflug WOW air til Salzburgar ekki minna en sextíu þúsund (ef þú tekur með þér farangur) og bónussætin með Flugfélagi Íslands úr Vatnsmýrinni yfir í Eyjarfjörð eru á rúmar ellefu þúsund. Vissulega kostar minna að vera aðkomumaður á Akureyri en í Osló en verðlagið á skíðasvæðum Alpanna er sennilega ekki mikið lægra en í norsku fjöllunum. Lyftukortin eru í það minnsta ódýrari á stærsta svæði höfuðborgarinnar, Oslo vinterpark, því þar kosta þrír dagar um 23 þúsund (995NOK) en um 25 þúsund (144 evrur) á Dolomiti svæðinu á Ítalíu. Í Hlíðarfjalli er þriggja daga kort á 7.800 krónur.

Lítið um íslenskt skíðafólk

Skíðasvæðin sem tilheyra Oslo vinterpark eru í kringum Holmenkollen og þar eru ellefu skíðalyftur. Í samtali við Túrista fullyrðir markaðsstjóri svæðisins, Hanne Norstrøm, að engin önnur höfuðborg geti státað af eins góðu skíðasvæði rétt fyrir utan miðbæinn. Hún segist vonast til að fleiri Íslendingar komi því þeir séu alltof sjaldséðir á svæðinu. Hanne mælir með að fólk finni sér hótel miðsvæðis í Osló og taki svo lestina (Lína 1 út að Frogneseteren) í átt að fjallinu. Þannig geti skíðafólkið notið alls þess sem borgin hefur upp á að bjóða á kvöldin.

Oslo vinterpark er ekki eina skíðasvæðið í nágrenni við Osló. Varingskollen er stutt frá og þar er að finna mest krefjandi brekkur höfuðborgarsvæðisins en líka góða aðstöðu fyrir börn. Í Grefsenkleiva eru langar brautir og brettafólki er þar gert hátt undir höfði.

Þess ber að geta að Flugfélag Íslands selur líka nettilboð til Akureyrar um níu þúsund sem er aðeins lægra en 9.900 króna fargjöld Primera Air til Oslóar.

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum í Osló
NÝJAR GREINAR: Farið til London hefur hækkað um meira en helming

Mynd: Oslo vinterpark