Til Kína fyrir minna en 100 þúsund

Þeir sem ætla til Austurlanda fjær geta komist þangað fyrir lægra verð en gengur og gerist.

Ferðamannastraumurinn til Kína hefur aukist hratt síðustu ár og Kínverjar ferðast nú út fyrir landsteinana í meiri mæli en áður. Framboð á flugi þangað er því mikið. Vegna fjarlægðarinnar þurfa íslenskir túristar að millilenda í Evrópu á leið sinni til Kína og fargjaldið alla leið því sjaldnast undir hundrað og fimmtíu þúsund krónum. Núna er hins vegar hægt að fá farið til Peking og Sjanghæ frá Keflavík og tilbaka á 96.405 krónur á heimasíðu SAS en útsala félagsins hófst í morgun. Þeir sem vilja heldur til Tókýó komast þangað með félaginu fyrir fyrir rúmar hundrað þúsund krónur.

SAS flýgur allt árið um kring frá Keflavík til Oslóar og þeir sem eiga erindi til höfuðborgar Noregs komast báðar leiðir á 29.900 krónur næstu mánuði. Þau verð eru í boði á fjöldamörgum dagetningum.

Öruggara að kaupa allt farið á einum stað

Líkt og Túristi hefur áður fjallað um þá eru réttindi þeirra sem missa af framhaldsflugi misjöfn. Sá farþegi sem keypti flugin í sitthvoru lagi getur lent í vondum málum ef hann missir af tengiflugi, t.d vegna seinkunar á ferðinni út. Besta leiðin til að tryggja sig fyrir svona skakkaföllum er að kaupa einn miða sem gildir alla leiðina hjá félögum eins og Icelandair eða SAS. Sá sem það gerir er á ábyrgð flugfélaganna ef ferðaáætlunin fer úr skorðum.

WOW air býður ekki upp á þennan möguleika og lággjaldaflugfélögin Norwegian, Airberlin og German Wings gefa aðeins færi á að bóka flug með millilendinu ef allt ferðalagið er með viðkomandi félagi.

HÓTEL: Finndu ódýrasta hótelið í Sjanghæ, Peking eða Tókýó
TILBOÐ: 10% afsláttur á gistingu í London

Mynd: Ricky Qi/Creative Commons