Þriðja nóttin frí á betri hótelum New York borgar

Fyrstu tvo mánuði ársins eru hótelstjórar í heimsborginni til í að slá af verðinu og þá gefst gott tækifæri til að bóka fimm stjörnu gistingu í stóra eplinu.

Helgarferð til New York hljómar örugglega vel í eyrum langflestra jafnvel þó frekar kalt sé í veðri á austurströnd Bandaríkjanna um þessar mundir. Þar er líka nóg við að vera innandyra og því óþarfi að láta veðrið stoppa sig ef bankainnistæðan leyfir borgarferð með litlum fyrirvara. Það skemmir heldur ekki fyrir að nokkur af betri hótelum Manhattan bjóða þriðju nóttina fría fram til loka febrúar og því hægt að spara sér dágóðan skilding. Til dæmis kostar nóttin á London NYC hótelinu (sjá mynd) rúmar fjörtíu þúsund íslenskar en með því að bóka í gegnum heimasíðu ferðamálaráðs borgarinnar fást betri kjör. Frægir gististaðir eins og Plaza og St. Regis eru líka með útsölu en auðvitað kostar það skildinginn að búa svona vel.

Þeir sem eru að leita að einhverju ódýrara, sem á sennilega við um langflesta, ættu að kíkja á hótelleit Túrista sem finnur hagstæðustu verðin í New York (smelltu hér).

Veitingamenn og leikhússtjórar líka með tilboð

Það er ekki aðeins hægt að sofa í fínu herbergi fyrir minna þessa dagana í New York því veitingahúsin lækka líka verðið hjá sér 14. janúar til 8. febrúar. Þá kostar þriggja rétta hádegismatseðill rúmar þrjú þúsund krónur og kvöldmaturinn um fimm þúsund. Á heimasíðu Nycgo.com er hægt að sjá hvað er í matinn á hverjum stað fyrir sig. Á Broadway eru menn líka uppteknir við að fylla sætin í janúar og febrúar og bjóða því tvo miða á verði eins 22. janúar til 7. febrúar.

Nú þegar hótelið, maturinn og skemmtunin eru á afslætti þá er bara að sjá hvað flugið kostar. Og það lítur frekar vel út því helgina 31. janúar til 4. febrúar og 14. til 18. febrúar kostar farið með Icelandair 61.980 krónur. Það er nokkuð vel sloppið fyrir flug vestur um haf með svo stuttum fyrirvara.

TILBOÐ: Betri kjör fyrir lesendur á hótelum í Berlín, London, Kaupmannahöfn og Edinborg

Mynd: London NYC