Uppáhalds áfengi fljúgandi frænda okkar

Norðmenn og Danir eru líklegri til að kaupa bjór í flugvélinni en vín. Dæminu er öfugt farið meðal Svía og sárafáir vilja staupa sig. Sem betur fer.

Þriðji hver norskur karl kýs bjór umfram aðrar áfengistegundir þegar hann er í háloftunum. Norskar konur taka hins vegar rauðvín framyfir aðra áfenga drykki og það sama gera kynsystur þeirra í Skandinavíu þegar þær sitja í flugvél. Danskir karlmenn eru, líkt og þeir norsku, áberandi mest fyrir ölið en þeir sænsku eru eins líklegir til að fá sér rauðvín eins og bjór. Í heildina er það bjórinn sem nýtur mestrar hylli.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í könnun sem British Airways lét gera nýverið meðal frændþjóðanna og Túristi hefur fengið aðgang að.

Svíar vilja sterkt

Þó léttvín og bjór eigi helst upp á pallborðið meðal Skandinava þá eru Svíar mun líklegri til að biðja flugliðana um sterka drykki en Norðmenn og Danir. Er það gin og tóník sem fellur Svíunum svona vel í geð og þeir eru líka helmingi trúlegri til að skála í kampavíni um borð.

Frændum okkar til hróss má þess geta að aðeins sex af þeim rúmlega fjögur þúsund sem tóku þátt í könnuninni segjast helst vilja staupa sig í flugsætinu.