Vilja að ESB banni handfarangursgjald

Þingmenn á Evrópuþinginu ætla að beita sér fyrir því að ESB tryggi rétt flugfarþega til að taka með sér handfarangur án þess að greiða sérstaklega fyrir það.

Eitt stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu, Wizz air, hefur nýlega tekið upp tíu evru gjald fyrir allan handfarangur sem kemst ekki undir flugsætin. Hópur þingmanna á Evrópuþinginu óttast að þetta sé það sem koma skal og hafa farið fram á það við Evrópuráðið að settar verði reglur sem banna flugfélögum að leggja á handfarangursgjöld.

Samkvæmt frétt Atwonline.com þá fengu tillögur þingmannanna ekki hljómgrunn hjá Karel De Gucht, viðskiptastjóra Evrópusambandsins. Haft er eftir honum að samkeppnin á flugmarkaðnum sé hörð og hann sé mótfallinn strangari reglum en nú gilda. Enn sem komið er hafa ekki önnur evrópsk flugfélög fylgt í fótspor Wizz Air en vestanhafs þurfa farþegar Spirit Airlines að borga fyrir handtöskur.

Flest flugfélög leyfa farþegum að taka með sér eina litla tösku í handfarangur og oftast er miðað við að hún sé ekki þyngri en 10 kíló. Einnig er fólki heimilt að taka með sér aukahlut eins og innkaupapoka úr fríhöfn eða tölvutöskur.

TENGDAR GREINAR: Aukagjöld flugfélaganna eins og þau leggja sig
HÓTEL: 10% afsláttur af gistingunni í London


Mynd: geishaboy500/Creative Commons