Hótelin sem mælt er með í Sankti Pétursborg

Af þeim borgum sem flogið er til beint frá Keflavík er Sankti Pétursborg sennilega sú sem er mest framandi. Hér eru þau hótel í borginni sem ferðaskríbentar og túristar gefa góð meðmæli og þar ættu því ókunnugir Íslendingar að vera vel settir.

Fyrrum höfuðborg Rússlands var byggð með það í hgua að heilla fólk upp úr skónum. Litlu var til sparað svo upp úr feninu myndi rísa ein glæsilegasta borg Evrópu. Það tókst og það er því ánægjulegt að íslenskum túristum gefist færi á að fljúga beint til borgarinnar í sumar þegar Icelandair hefur áætlunarflug þangað.

Hér eru sex misdýr hótel í borginni sem eiga það sameiginlegt að fá góða umsögn í þekktum ferðablöðum og meðal notenda Tripadvisor.

Vesta hotel – 15.000 kr.

Flestir af vinsælustu ferðamannastöðum borgarinnar eru í mesta lagi hálftíma göngufæri frá Vesta hótelinu. Staðsetningin er því virkilega góð og verðin sömuleiðis því ódýrustu tveggja manna herbergin kosta frá fimmtán þúsund krónum. Sérfræðingur Telegraph er sannfærður um að ódýrari verði hótelin ekki í borginni (hótelstjórinn er svo ánægður með þá umsögn að hann hefur sett hana á heimasíðuna). Í umsögn Telegraph kemur líka fram að innréttingar herbergjanna séu mjög einfaldar og Ikea-legar.

Arbat Nord – 20.000 kr.

Vel staðsett og einfalt hótel er það sem margir biðja um þegar þeir leita að gistingu í ókunnugri borg. Að mati ferðabóka Frommers þá er þetta eitt besta ódýra hótelið í Skt. Pétursborg og meðaleinkunin hjá Tripadvisor er 4 af fimm mögulegum. Seinni hluta sumars eru herbergin ódýrari og kosta frá 20.000 krónum samkvæmt heimasíðu hótelsins. Það er hins vegar hægt að finna þau aðeins ódýrari með því að smella hér.

NasHotel – 30.000 kr.

Innréttingarnar eru langt frá því að vera látlausar en hótelið vel staðsett og er það hótel í borginni sem fær þriðju bestu dómana á Tripadvisor. Ferðablað Sunday Times segir útsýnið frá herbergjunum framúrskarandi, sérstaklega frá áttundi hæð. Ef bókað er á heimasíðu hótelsins kostar nóttin í júní um 35.000 krónur en hér má finna herbergi á NasHotel á undir þrjátíu þúsund.

Alexander House og Pushka Inn – 35.000 kr.

Af þeim 228 hótelum í Sankti Pétursborg sem Tripadvisor hefur á skrá sinni þá fá þessi tvö bestu dómana. Blaðamaður NY Times mælir líka með Alexander House sem er tuttugu herbergja gististaður. Fram í ágúst kosta herbergin frá rúmum 40.000 en svo lækkar hótelstjórarnir verðið.

Corinthia Hotel – 40.000 kr.

Þetta fimm stjörnu hótel er innréttað í klassískum rússneskum stíl og er eitt af fínu hótelunum sem Conde Nast Traveler bendir fólki á. Nóttin kostar að lágmarki fjörtíu þúsund í ágúst en aðeins meira fyrri hluta sumars. En með því að nota bókunarvélina hér þá er hægt að finna herbergi á rúmar 33 þúsund krónur.

Smelltu hér til að leita að fleiri hótelum í Sankti Pétursborg

TENGDAR GREINAR: Rússlandsreisan hefst í Túngötu

Mynd: Archer10/Creative Commons