Hóteltékk: Ackselhaus og Blue home í Berlín

Hótel með persónulegum stíl við fallega íbúðagötu í einum skemmtilegasta hluta Berlínar. Gisting fyrir þá sem taka hverfisstemmningu fram yfir hringiðjuna.

Þó Prenzlauer Berg sé eitt vinsælasta hverfi höfuðborgar Þýskalands þá eru ekki mörg hótel þar að finna. Við hljóðláta götu, á besta stað í hverfinu, er samt sem áður að finna tvo gististaði, Ackselhaus og Blue home, sem eru í eigu sama aðila.

Það er greinilegt að hér hefur persónulegur stíll verið látinn ráða för þegar húsin voru innréttuð. Öll sextán herbergi Ackselhause eru hvert með sínum brag, eitt er eins og bandarískt strandhús, Feneyjar eru fyrirmynd annars og svo fram eftir götunum. Á Blue home er blái liturinn í aðalhlutverki og þar eru nítján misstór herbergi. Allt frá eins manns kytrum og upp í sextíu fermetra íbúð.

Herbergin

Það er ákveðið krydd í tilveru ferðamannsins að gista á hóteli þar sem hlutirnir eru útpældir og persónulegir. Þó maður myndi kannski ekki sjálfur innrétta þá hefur eigendum Ackselhouse og Blue Home tekist að búa til hlýlega gistingu og munað að leggja metnað í góð rúm og þægileg baðherbergi.

Staðsetning

Prenzlauer Berg var lengi vel það hverfi sem naut mestra vinsælda hjá íbúum Berlínar. Leigan var þá lág en nú er unga fólkið orðið ráðsett og komið með börn og ögn rólegri stemmning á götunum en áður.

Hótelin tvö standa við Belforter Strasse sem er gróin og falleg íbúðagata á fínum stað í hverfinu, aðeins tekur um 5 mínútur að ganga að næstu metró stöð (U-bahn: Senefelderplatz) og fjöldi kaffihúsa og veitingastaða er að finna í Knaackstrasse, bak við hótelið, og fleiri götum sem eru í stuttu göngufæri.

Verðið

Það kostar að lágmarki 110 evrur að búa á þessum hótelum og aðeins hægt að panta með því að senda fyrirspurn á hótelin. Herbergin eru mjög misjöfn og því gott að skoða heimasíðuna áður til að sjá hvaða herbergi eru manni mest að skapi. Íbúðirnar eru á 150 til 170 evrur. Það er lítið mál að finna ódýrari gistingu í Berlín en Túristi mælir óhikað með Ackselhaus og Blue Home sem vilja búa í persónulegu umhverfi og njóta stemmningarinnar í Prenzlauer Berg.

Þeir sem panta og nefna „Turisti.is“ fá fría freyðivínflösku þegar þeir koma á hótelið (sjá nánar hér).

NÝJAR GREINAR: Hótelin sem mælt er með í Sankti Pétursborg