Icelandair meðal þeirra stærstu Boston

Síðustu sautján ár hafa Íslendingar getið flogið beint til Boston á austurströnd Bandaríkjanna. Icelandair er eina félagið á Norðurlöndum sem býður upp á ferðir til borgarinnar.

Í sumar fjölgar Icelandair ferðum sínum til Boston í Bandaríkjunum upp í átján á viku. Þriðjudaga til föstudaga verður flogið þangað þrisvar sinnum á dag frá Keflavík en British Airways og Lufthansa eru einu evrópsku flugfélögin sem fljúga oftar til Boston samkvæmt athugun Túrista. Ekkert félag á Norðurlöndunum er t.a.m. með Boston á sinni dagskrá og því liggur sennilega leið flestra Skandinava, á leið til Boston, í gegnum Keflavíkurflugvöll.

Á því gæti hins vegar orðið breyting á því talsmaður Finnair lét hafa það eftir sér í vikunni að félagið væri að íhuga flug til eins af höfuðvígum Icelandair vestanhafs. Finnair hefur þó áður spreytt sig á þessari flugleið en gefist upp en Icelandair sinnt Boston fluginu síðan vorið 1996.

Oftar til Denver og Washington

Tæpt ár er liðið frá jómfrúarflugi Icelandair til Denver í Colorado og í vor verður ferðunum fjölgað um tvær á viku og verða þá sex í heildina. Brottförum til Washington verður einnig fjölgað og þar með er höfuðborg Bandaríkjanna einn af þeim áfangastöðum sem flogið er til daglega frá Keflavík.

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum í Boston
TENGDAR GREINAR: Greta Mjöll á heimavelli í Boston

Mynd: Ferðamálaráð Boston