Leiðinlegur sessunautur pirrar meira en sein flugvél

Ekkert fer eins í taugarnar á flugfarþegum eins og að þurfa að sitja við hliðina á óskemmtilegu fólki. Lítið fótapláss fer einnig fyrir brjóstið á mörgum.

Það getur reynt á geðið að sitja við hliðina á leiðindaskjóðu með munnræpu í háloftunum. Frændur okkar í Skandinavíu eru alla vega ekki í vafa um að þess háttar sessunautur er það sem pirrar þá mest við flugferðir. Seinkanir á flugi og farangri koma þar á eftir eins og sjá má á töflunni hér fyrir neðan sem er byggð á könnun British Airways á meðal Norðmanna, Dana og Svía.

Þrengslin mörgum erfið

Það getur munað tíu sentimetrum á bilinu milli sætisraða í þotunum sem fljúga til og frá Íslandi. Í könnun sem Túristi gerði nýverið kom í ljós að bilið er minnst hjá Transavia eða 71 cm. Í sumum röðum hjá Wow air er bilið einnig svona lítið en til samanburðar má nefna að hjá Ryanair eru 76 cm á milli sæta en það félag er betur þekkt fyrir lág verð en þægindi. Í könnun British Airways kom í ljós að lítið bil á milli sæta fer mest í taugarnar á sjötta hverjum farþega.

Þau atriði sem pirra fljúgandi Skandinava mest:

  1. Leiðinlegur sessunautur: 20,5%
  2. Seinkun á flugi: 19,5%
  3. Seinkun á farangri: 19%
  4. Lítið fótapláss: 17%
  5. Að millilenda: 7%
  6. Ókyrrð í loftinu: 5,5%
  7. Borga fyrir veitingar: 5%
  8. Aðrir farþegar: 4%
  9. Annað: 2,5%

VILTU FRÍAN MORGUNMAT Í KAUPMANNAHÖFN?

NÝJAR GREINAR: Meira en 60 ferðir til 26 landa í 5 heimsálfum

Mynd: SAS