Loks frítt net í Leifsstöð

Flugfarþegar á hinum Norðurlöndunum þurfa ekki að borga fyrir netaðgang. Í sumar verður hætt að rukka fyrir þjónustuna hér á landi.

Í dag kostar tæpar fimm hundrað krónur að tengjast netinu á Flugstöð Leifs Eiríkssonar. En líkt og Túristi greindi frá í síðustu viku er aðgangurinn ókeypis í meira en áttatíu norrænum flugstöðvum. Nú hafa forsvarsmenn Keflavíkurflugvallar ákveðið að feta í fótspor kollega sinna á hinum Norðurlöndunum og bjóða frían aðgang að interneti frá og með sumrinu. Á sambandið að nást í allri byggingunni samkvæmt því sem kom fram í samtali við talsmann Isavia í Síðdegisútvarpi Rásar 2 um málið.

Reynsla frændþjóðanna af því að hætta að rukka fyrir netið er mjög góð og það er því líklegt að margir íslenskir og erlendir flugfarþegar muni fagna gjaldfrjálsu netsambandi í Keflavík þegar líða tekur á árið.

Snjallsímaforrit er líka á leiðinni

Í nærri áratug hefur aðstandendur Kaupmannahafnarflugvallar gert fólki kleift að fylgjast með komu- og brottfarartímum í farsímum. Þegar snjallsímavæðingin gekk yfir þá voru Danirnir snöggir að bjóða upp á „app“ sem veitir upplýsingar um ferðaáætlanir, tilboð í fríhöfninni og fengið leiðsögn um bygginguna. Álíka forrit eru í boði fyrir marga af helstu flugvöllum í heimi og í sumar er von á álíka forriti frá Leifsstöð samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

VILTU FRÁ 10% AFSLÁTT AF GISTINGU Í PARÍS?
TENGDAR GREINAR: Aðeins í Leifsstöð þarf að borga fyrir netsamband

Mynd: Túristi