Löndin í Asíu sem Wow gæti flogið til

Forsvarsmenn Wow air segjast vera að íhuga flug til Asíu og Ameríku. Félagið gæti þá orðið það fyrsta til að bjóða upp á áætlunarferðir héðan til Asíu. Ísland er með loftferðasamninga við 15 lönd í heimsálfunni.

Nöfn asískra borga verður kannski að finna á upplýsingaskjáum Leifsstöðvar innan nokkurra missera. Forsvarsmenn Wow air segjast nefnilega vera að skoða flug til heimsálfunnar samkvæmt því sem kom fram í viðtali við Björn Inga Knútsson, framkvæmdastjóra flugrekstrarsviðs Wow air, á mbl.is í síðustu viku. Farþegum hér á landi hefur ekki áður staðið til boða reglulegt beint flug til Asíu og Icelandair mun ekki vera að horfa þangað samkvæmt því sem kom fram í viðtali Túrista við Birki Hólm Guðnason, framkvæmdastjóra Icelandair sl. sumar.

Tæland, Sameinuðu arabísku og Kína

Wow air hyggst sækja um flugrekstrarleyfi áður en að félagið hefur flug til Ameríku og Asíu. Loftferðasamningar sem íslensk stjórnvöld hafa gert munu þá takmarka úrval þeirra áfangastaða sem félagið getur flogið til. Samkvæmt heimasíðu innanríkisráðuneytisins eru í gildi samningar við Hong Kong, Kína, Makaó, Mongólíu, Tæland og Singapúr í Asíu. Auk þess hafa verið áritaðir samningar við nokkur vinsæl ferðamannalönd í álfunni, t.d. Indland, Katar og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Þessir samningar hafa þó ekki öðlast gildi ennþá þó ákvæðum þeirra sé beitt frá áritun eins og segir á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Í heildina hafa 15 lönd í Asíu gert loftferðasamninga við Ísland en þeir geta þó veitt mismunandi heimildir.

Skortur á flugrekstrarleyfi ætti ekki að stöðva áformin

Í viðtali Mbl.is við Björn Inga frá Wow air kemur fram að flugrekstrarleyfi sé forsenda flugs til Bandaríkjanna. Bandaríkjamenn setja þó ólíklega svo strangar kröfur því Iceland Express gat flogið vestur um haf án þess að vera flugrekandi því breska félagið, sem sinnti fluginu, hafði til þess heimild. Litháíska flugfélagið Avion Express, sem flýgur fyrir Wow air, ætti líka að geta flogið til Bandaríkjanna því samkvæmt svari talsmanns litháískra flugmálayfirvalda, við fyrirspurn Túrista, þá er Litháen aðili að loftferðasamningi Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Íslenskt flugrekstarleyfi virðist því ekki vera aðgöngumiði Wow air að bandarískum flugvöllum, litháískt leyfi Avion Express ætti að duga. Litháen hefur auk þess gert loftferðasamninga við níu ríki í Asíu.

VILTU 10% AFSLÁTT AF GISTINGU Í PARÍS?

Fylgstu með Túrista á Facebook

NÝJAR GREINAR: Íslenskum túristum fjölgar í Kaupmannahöfn

Mynd: Víkurfréttir