Meira en 60 ferðir til 26 landa í 5 heimsálfum

Enskar hallir, eþíópísk þorp og eyjurnar Sri Lanka og Sikiley eru meðal þess sem ferðalangar á vegum Bændaferða eiga eftir að upplifa í ár.

Dagskrá Ferðaþjónustu bænda er mjög fjölbreytt og sennilega er engin ferðaskrifstofa hér á landi sem státar af öðru eins úrvali. Túristi lagði nokkrar spurningar fyrir Hugrúnu Hannesdóttur, sölustjóra Bændaferða.

Hverjir eru föstu liðirnir hjá ykkur?

„Ferðirnar taka nú oft einhverjum breytingum á milli ára, en þær sem hafa verið hvað lengst á dagskrá hjá okkur eru haustferðir að Gardavatni á Ítalíu og til Portoroz í Slóveníu. Einnig bjóðum við á hverju ári upp á mismunandi staði í Austurríki og Þýskalandi, þar á meðal ferðalög á jóla- og aðventumarkaði en við höfum haft þannig ferðir á dagskránni í hátt í tuttugu ár enda njóta þær alltaf mikilla vinsælda. Fljótasiglingarnar eru líka fastur punktur og eru þær mismunandi á milli ára. Einnig hafa reisur á Íslendingaslóðir og í Klettafjöllin í Kanada verið á dagskrá hjá okkur í áraraðir. Allar götur síðan árið 2004 höfum við svo boðið upp á Kínaferðir, oft nokkrar mismundandi á ári.“

Hvað er nýtt af nálinni?

„Nýjungar eru ansi margar og ég veit varla hvar ég á að byrja. Saga Vestur-Íslendinganna er í fyrirrúmi hjá okkur á árinu og í boði verða splunkunýjar og spennandi ferðir, með sagnfræðingnum Jónasi Þór, á staði sem Íslendingar fluttu til. Mörg okkar fylgjast með framhaldsþáttunum um Downtown Abbey og þar kom hugmyndin að nýrri ferð til Englands sem heitir Heiðursmenn og hallir. Svo ætlum við í ferðinni Töfrandi Tírólatónar að fara á tónleika með hinni þekktu þjóðlagapopphljómsveit Kastelruther Spatzen. Baskalöndin, Apulia héraðið á Ítalíu og eyjan þar sem hin vinsæla kvikmynd Mamma mia var tekin upp eru einnig meðal þeirra staða sem við höfum ekki heimsótt áður.“
„Á síðasta ári prófuðum við nýja tegund af hreyfiferð, þar sem mismunandi útivist var blandað saman; gönguferðum, stafgöngu og hjólaferðum. Dagurinn byrjaði með upphitun og í lok dags var teygt á og farið í gufubað á hótelunum. Fararstjórinn var að sjálfsögðu íþróttakennari. Þessi ferð sló í gegn og nú bjóðum við upp á tvær slíkar, Útivist við Achensee og Útivist í Tíról. Við höfum líka tryggt okkur númer í hinar mismunandi vegalengdir Munchenmaraþonsins sem hlaupið verður síðar á árinu.
Af nýjum sérferð má nefna heimsókn til Alaska, með beinu flugi Icelandair og Sri Lanka, áfangastaður ársins hjá Lonely Planet, verður líka könnuð. Suður-Afríka er komin á kortið hjá okkur á ný eftir nokkurt hlé og Íslendingur, búsettur í New York, mun taka á móti hópi ferðamanna og kynna þá fyrir heimsborginni. Svo má ekki gleyma að við erum með á prjónunum ferð á Suðurpólinn í ársbyrjun 2014 með Ara Trausta Guðmundssyni.“

Finnst þér að það hafi orðið breytingar á ferðavenjum Íslendinga síðust ár?

„Það hafa augljóslega orðið breytingar á ferðavenjum Íslendinga síðustu ár. Við finnum að það skiptir farþega miklu máli hve mikið er innifalið í ferðunum okkar og fólk tekur sér lengri umhugsunarfrest til að ákveða hvað verður fyrir valinu. Margir fara í færri ferðir en áður og það er því að sjálfsögðu mikilvægt að þá heppnist allt sem best. Hér áður fyrr spáðu því margir að hópferðir myndu líða undir lok en við finnum einmitt að farþegar eru oft ekki bara að sækjast eftir spennandi áfangastöðum, heldur skiptir félagsskapurinn og sjálft skipulagið miklu máli. Það að geta verið áhyggjulaus á ferðalagi er kostur í huga margra.“

Á dagskránni eru ferðir sem kosta yfir hálfa milljón á mann. Er markaður fyrir þannig ferðir?

„Þrátt fyrir að íslenski markaðurinn sé lítill, er markaður fyrir framandi ferðalög, enda hafa Íslendingar ánægju af því að kynna sér ólíka menningu og áhugaverða áfangastaði. Það víkkar sjóndeildarhringinn og margir segja við okkur, þegar að heim er komið, að þau sjái augljóslega hvað við Íslendingar erum í raun heppin. Hvað margt er gott hér heima. Flestir sem ferðast til fjarlægra landa þurfa að spara í langan tíma til að komast í þannig reisu og þurfa að velja hvað peningnum er eytt í. En þó ferðirnar kosti sitt, þá þarf fólk yfirleitt varla að taka upp veskið þegar við erum lögð í hann, nema þá helst til að kaupa minjagripi. Smæð markaðarins gerir það þó að verkum að suma áfangastaði getum við bara boðið uppá á nokkurra ára fresti.“

Ef þú mættir velja þér eina Bændaferð til að fara í hvaða ferð myndirðu velja og afhverju?

„Ég get ómögulega valið eina ferð, þar sem áhugasvið mitt er svo vítt. Ég er mikil útivistarmanneskja, fer t.d. á hverju ári í skíðaferð, annað hvort á svigskíði eða gönguskíði. Sumir áfangastaðanna eru þannig að það er nóg að koma þangað einu sinni, á meðan að aðrir heilla mann upp úr skónum og það verður efst á óskalistanum að komast þangað aftur. Ég hefði klárlega farið til Víetnam og Kambódíu nú í febrúar ef ég hefði haft tök á því, þar sem sumir af viðskiptavinum okkar sem fóru í sambærilega ferð árið 2010, sögðu að það væri áhugaverðasta ferðin sem þau hefðu nokkru sinni tekið þátt í. Og höfðu þau þó farið víða. Síðan hefði ég gjarnan viljað heimsækja eyjuna þar sem kvikmyndin Mamma Mia var tekin upp.

Sjá úrvalið á heimasíðu Bændaferða.