Reykjavík í ellefta sæti hjá Skandinövum

London og Róm eru þær ferðamannaborgir sem Dönum, Svíum og Norðmönnum þykir mest til koma í Evrópu. Reykjavík í einu af neðstu sætunum.

Nýlega voru hátt í þrjú þúsund Skandinavar spurðir hvaða evrópska borg sé þeirra upphálds áfangastaður. Valið stóð á milli fjórtán borga og þar á meðal Reykjavíkur. Það er skemmst frá því að segja að höfuðborg Bretlands sigraði valið með yfirburðum og fékk liðlega fjórðung atkvæða.

Róm var í öðru sæti en hún og Lissabon eru einu borgirnar, á lista þeirra tíu vinsælustu, sem ekki er flogið til beint frá Keflavík.

París og Barcelona fengu einnig mörg atkvæði en afgangurinn dreifðist nokkuð jafnt á milli næstu sæta.

Reykjavík endaði í því ellefta, af fjórtán mögulegum. Athygli vekur að Svíar og Norðmenn gáfu Reykjavík mun fleiri atkvæði en Danir gerðu.

Osló óvinsæl

Þátttakendur í þessari könnun, sem gerð var fyrir British Airways, gátu líka valið sína eigin höfuðborg. Kaupmannahöfn og Stokkhólmur komast á lista þeirra tíu vinsælustu en Osló fékk aðeins örfá atkvæði meðal granna sinna og endaði því í tólfta sæti. Fjögur félög fljúga hins vegar héðan til Oslóar um þessar mundir.

Uppáhalds ferðamannaborgir Skandinava

 1. London
 2. Róm
 3. París
 4. Barcelona
 5. Berlín
 6. Kaupmannahöfn
 7. Amsterdam
 8. Stokkhólmur
 9. Lissabon
 10. Madríd
 11. Reykjavík
 12. Osló
 13. Brussel
 14. Varsjá

VILTU 10% AFSLÁTT AF GISTINGU Í LONDON og í PARÍS?
HÓTEL: Smelltu til að gera verðsamanburð á hótelum

Mynd: Visit London
Heimild: Epinion-Primetime