Þráðlaust net í þotum fjögurra félaga hér á landi

Af þeim sextán félögum sem halda uppi millilandaflugi héðan næsta sumar munu fjögur fljúga vélum með nettengingu. Sumir rukka fyrir þjónustuna en aðrir ekki.

Norska lággjaldaflugfélagið Norwegian hóf flug milli Oslóar og Keflavíkur síðasta sumar og hefur allan þann tíma boðið upp á frítt netsamband. Farþegar SAS, á sömu leið, geta einnig komist á netið í þeim tilvikum sem vélar með þráðlausan búnað sinna Íslandsfluginu. Innan skamms mun Icelandair svo hefjast handa við að netvæða flotann sinn og bandaríska flugfélagið Delta áformar að vera með net í vélunum sem fljúga milli Íslands og New York í sumar.

Þar með munu fjögur af þeim sextán félögum sem halda uppi millilandaflugi héðan bjóða upp á þessa þjónustu sem er enn fátíð í flugheiminum. Hins vegar verða ekki allar vélar félaganna með þráðlaust net og því geta farþegarnir ekki gengið að því sem vísu.

Ókeypis hjá Norwegian

Það kostar um tvö þúsund krónur (95 norskar kr.) að tengjast netinu um borð hjá SAS og hjá Delta þarf að borga um 1770 krónur (14 dollara). Hjá Norwegian er þjónustan hins vegar innifalin í fargjaldinu en félagið hefur reyndar legið undir ámæli fyrir að rukka aðeins hærra fargjald með flugvélunum sem eru með tölvunet. Ekki er komið í ljós hvort farþegar Icelandair þurfa að borga fyrir aðgang að neti eða hversu mikið.

NÝJAR GREINAR: Meira en 60 ferðir til 26 landa í 5 heimsálfum