Þrír af hverjum fjórum farþegum með Icelandair

Þrjú þúsund fleiri ferðuðust milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar á síðasta ári. Hlutdeild Icelandair jókst þrátt fyrir aukna samkeppni.

Í fyrra flugu tæplega 380 þúsund farþegar milli Kaupmannahafnar og Keflavíkur samkvæmt tölum frá dönsku samgöngustofnuninni. Á sama tíma voru farþegar Icelandair á flugleiðinni 286 þúsund talsins samkvæmt upplýsingum sem Túristi hefur fengið frá Kaupmannahafnarflugvelli. Það jafngildir því að þrír af hverjum fjórum, sem ferðuðust á milli höfuðborgar Danmerkur og Íslands, flugu með Icelandair. Í fyrra var hlutfallið 72,5 prósent. Inn í þessum tölum eru líka farþegar sem aðeins millilenda í Keflavík á leið milli meginlands Evrópu og N-Ameríku.

Farþegatölur Iceland Express og Wow air fást ekki uppgefnar hjá forráðamönnum Kaupmannahafnarflugvallar því aðeins er gefin upp fjöldi farþega hjá tuttugu umsvifamestu félögunum í Kastrup. Icelandair var í þrettánda sæti á þeim lista á síðasta ári.

Iceland Express missti flugið

Aukin hlutdeild Icelandair er athyglisverð í ljósi þess að í fyrra jókst samkeppnin í Kaupmannahafnarfluginu með tilkomu Wow air. Árin á undan voru það Icelandair og Iceland Express sem sinntu fluginu. Þar sem engar nýjar opinberar tölur eru til um farþegafjölda annarra á flugleiðinni er ekki hægt að segja til um hvernig farþegar skiptust milli félaganna þriggja á síðasta ári. En í átta ára gömlu erindi Iceland Express til samkeppnisyfirvalda kemur fram að félagið hafði þá um 35-40 prósent hlutdeild á þessari leið. Það hefur því mikið breyst síðan þar sem hlutdeildin hefur verið komin niður fyrir 30 prósent um áramótin 2011 og væntanlega ennþá neðar þegar Wow air hóf flug til dönsku höfuðborgarinnar.

 

VILTU FRÍAN MORGUNMAT Í KAUPMANNAHÖFN?
NÝJAR GREINAR: Hótelin sem mælt er með í Sankti Pétursborg

Mynd: Cph.dk

//