Ameríkuflug Wow Air hefst næsta vor

Eftir rúmt ár mun samkeppnin á flugi til Bandaríkjanna aukast ef áætlanir eigenda Wow Air ganga eftir. Félagið skilaði hagnaði á síðasta ári.

„Já, það er rétt, í dag erum við aðeins ferðaskrifstofa sem leigir flugvélar. En við reiknum með að Wow Air fái sitt eigið flugrekstrarleyfi í september“, segir Skúli Mogensen, forstjóri Wow Air í viðtali við danska ferðaritið Standby. Hann bætir því við að vorið 2014 byrji Wow Air að fljúga vestur um haf en vill þó ekki gefa upp hvaða áfangastaðir í Bandaríkjunum verða fyrir valinu. Skúli segir þó að flogið verði til borga sem núna eru hluti að leiðakerfi Icelandair.

Stefnt á hagnað í ár

Í viðtalinu kemur einnig fram að velta Wow Air á síðasta ári hafi verið rúmir tólf milljarðar króna. „Ég hef aðeins fjárfest í félaginu með mínu eigin fjármagni, einnig við yfirtökuna á Iceland Express, en það félag gat ekki haldið verðstríðinu við okkur áfram. Wow Air tók Iceland Express yfir því vasar mínir voru dýpri“, segir Skúli við Standby í Danmörku.

Mega hefja Bandaríkjaflug án flugrekstrarleyfis

Í nýlegu viðtali við Björn Inga Knútsson, framkvæmdastjóra Wow Air, kom fram að flugrekstrarleyfi væri forsenda flugs til Bandaríkjanna. Iceland Express gat þó flogið þangað án þess að vera með þess háttar leyfi og Wow Air ætti að geta það líka. Því samkvæmt upplýsingum Túrista hjá Flugmálastjórn Litháen, en Avion Express sem sér um flug Wow er skráð þar í landi, mega litháísk flugfélög fljúga til Bandaríkjanna.

Athugasemd: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að Wow hefði skilað hagnaði í fyrra, líkt og haft var eftir Skúla í Standby. Samkvæmt upplýsingum frá Wow var um misskilning milli danska blaðamannsins og forstjóra Wow að ræða því stefnt er á hagnað nú í ár.

VILTU 10% AFSLÁTT AF GISTINGU Í PARÍS?

HÓTEL: Gerðu verðsamanburð á hótelum í London
NÝJAR GREINAR: Casper úr Klovn mælir með afrískri kjötveislu fyrir Íslendinga

Mynd: Víkurfréttir