Easy Jet fjölgar ferðum og áfangastöðum

Íslenskum túristum stendur nú til boða beint flug til London, Manchester og Edinborgar allt árið með breska lággjaldaflugfélaginu.

Fyrir ári síðan hóf Easy Jet að fljúga hingað þrisvar í viku frá London. Nú eru ferðirnar orðnar fjórar í viku og í febrúar á næsta ári fjölgar þeim upp í sex. Að auki hefur félagið bætt tveimur heilsársáfangastöðum í Bretlandi við leiðakerfi sitt hér á landi, Manchester og Edinborg. Frá og með byrjun næsta árs munu vélar Easy Jet því taka á loft frá Keflavíkurflugvelli ellefu sinnum á viku en til samanburðar verða vikulegar brottfarir á vegum Wow Air tuttugu og átta á þeim tíma. Breska félagið verður það þriðja umsvifamesta í millilandaflugi frá Íslandi á eftir Icelandair og Wow air.

Beint til Edinborgar í vetur

Hingað til hefur Icelandair verið eini aðilinn sem boðið hefur upp á áætlunarferðir til Manchester á Englandi. Nú geta farþegar á leiðinni þangað hins vegar valið úr sex ferðum í viku, þremur með hvoru félagi. Easy Jet mun þó sitja eitt að fluginu til Edinborgar en þangað verður flogið á mánudags- og fimmtudagskvöldum. Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á áætlunarflug til Edinborgar yfir veturinn en Iceland Express flaug þangað síðustu tvö sumur. Skoski höfuðstaðurinn var nýlega kjörinn ferðamannaborg Evrópu.

VILTU 10% AFSLÁTT AF GISTINGU Í EDINBORG?

NÝJAR GREINAR: Hvar er ódýrast að sjá Paul McCartney í sumar?

Myndir: Visit Scotland og Easy Jet