Easy Jet fjölgar ferðum og áfanga­stöðum

Íslenskum túristum stendur nú til boða beint flug til London, Manchester og Edin­borgar allt árið með breska lággjalda­flug­fé­laginu.

Fyrir ári síðan hóf Easy Jet að fljúga hingað þrisvar í viku frá London. Nú eru ferð­irnar orðnar fjórar í viku og í febrúar á næsta ári fjölgar þeim upp í sex. Að auki hefur félagið bætt tveimur heils­árs­áfanga­stöðum í Bretlandi við leiða­kerfi sitt hér á landi, Manchester og Edin­borg. Frá og með byrjun næsta árs munu vélar Easy Jet því taka á loft frá Kefla­vík­ur­flug­velli ellefu sinnum á viku en til saman­burðar verða viku­legar brott­farir á vegum Wow Air tuttugu og átta á þeim tíma. Breska félagið verður það þriðja umsvifa­mesta í milli­landa­flugi frá Íslandi á eftir Icelandair og Wow air.

Beint til Edin­borgar í vetur

Hingað til hefur Icelandair verið eini aðilinn sem boðið hefur upp á áætl­un­ar­ferðir til Manchester á Englandi. Nú geta farþegar á leið­inni þangað hins vegar valið úr sex ferðum í viku, þremur með hvoru félagi. Easy Jet mun þó sitja eitt að fluginu til Edin­borgar en þangað verður flogið á mánu­dags- og fimmtu­dags­kvöldum. Þetta er í fyrsta skipti sem boðið er upp á áætl­un­ar­flug til Edin­borgar yfir veturinn en Iceland Express flaug þangað síðustu tvö sumur. Skoski höfuð­stað­urinn var nýlega kjörinn ferða­manna­borg Evrópu.

VILTU 10% AFSLÁTT AF GISTINGU Í EDINBORG?

NÝJAR GREINAR: Hvar er ódýrast að sjá Paul McCartney í sumar?

Myndir: Visit Scot­land og Easy Jet