Fargjöld hafa lítið breyst frá í fyrra

Fyrir nákvæmlega ári síðan kostaði ódýrasta farið í til Lundúna um miðjan júní um fjörtíu þúsund. Í sumar kostar farmiðinn að lágmarki 36.308 krónur. Túristi hefur fylgst með verðþróuninni undanfarið ár.

Farþegi sem ætlar til Kaupmannahafnar eftir tólf vikur borgar 2.215 krónum meira fyrir farið en sá sem var í sömu sporum fyrir ári síðan. Hins vegar hefur lægsta fargjaldið til London lækkað um tíund frá því í fyrra. Þetta sýna niðurstöður mánaðarlegra verðkannana Túrista sem framkvæmdar hafa verið síðan 21. mars í fyrra.

Easy Jet lækkar meira

Líkt og fyrir ári síðan munar litlu á fargjöldum Easy Jet og Wow air til London þegar bókað er tólf vikur fram í tímann. Hjá breska félaginu kostar ódýrasta farið, að viðbættu farangurs- og bókunargjaldi, 36,308 krónur en 38,173 hjá Wow Air. Verðlækkun Easy Jet nemur um tíund á tímabilinu en 3,5 prósent hjá íslenska félaginu. Verð Icelandair stendur í stað milli ára eins og sjá má á grafinu hér fyrir neðan.

Bilið minnkar milli Wow og Icelandair

Í mars í fyrra munaði tæpum fimm þúsund krónum á ódýrustu fargjöldum Wow og Icelandair til Kaupmannahafnar í viku 24. Núna er munurinn 2.558 krónur. Líkt og í fyrri könnunum eru fundin ódýrustu fargjöldin báðar leiðir og gert er ráð fyrir að lágmarksdvöl í útlöndum sé tvær nætur.

FRAMHALD: Það borgar sig að bóka farið út með fyrirvara – Sjá niðurstöður könnunar á fargjöldum til Kaupmannahafnar, London og Oslóar eftir fjórar og tólf vikur.

VILTU FRÍAN MORGUNMAT Í KÖBEN?